Að minnsta kosti 53 eru látnir, þar af fimm börn, eftir árásir Bandaríkjamanna á borgirnar Sanaa og Radaa í Jemen.
Þetta segja nýjustu tölur frá heilbrigðisráðuneytinu í Saana, sem er undir stjórn Húta.
Þá voru um hundrað manns særðir eftir árásirnar að sögn heilbrigðisráðuneytisins fyrr í dag og var þar greint frá að flest fórnarlambanna væru konur og börn. Bandaríkjamenn segjast þó hafa fellt nokkra háttsetta leiðtoga Húta.
Hernaðaraðgerðin, fyrirskipuð af Donald Trump Bandaríkjaforseta, beindist að uppreisnarmönnum Húta og voru árásir gerðar ýmist frá hafi eða lofti.
Síðustu mánuði hafa Hútar truflað skipaferðir um Rauðahaf. Herinn, undir stjórn Joes Bidens, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, réðst ítrekað gegn Hútum með litlum árangri.
Talið er að árás Bandaríkjanna gæti staðið yfir í einhverja daga og stigmagnast, háð því hvernig uppreisnarmennirnir bregðast við. En þess ber að geta að í kjölfar árásarinnar sögðust Hútar hafa gert árás á bandarískt flugmóðurskip á Rauðahafi í dag. Bandaríkjamenn segja þá árás ekki hafa ógnað flugmóðurskipinu.