Trump gerir Írana ábyrga fyrir aðgerðum Húta

Donald Trump hefur gert Írana ábyrga fyrir öllum árásum uppreisnarmanna …
Donald Trump hefur gert Írana ábyrga fyrir öllum árásum uppreisnarmanna Húta hér eftir. AFP/Anna Moneymaker

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti lýsti því yfir í dag að hann kæmi til með að gera Írana milliliðalaust ábyrga fyr­ir öll­um árás­um upp­reisn­ar­manna Húta á banda­rísk skip á Rauðahafi, en upp­reisn­ar­menn­irn­ir, sem klerka­stjórn­in í Teher­an styður, hafa síðustu miss­eri skotið fjölda skeyta að banda­rísk­um og annarra þjóða flutn­inga­skip­um í því augnamiði að hindra vöru­flutn­inga til Ísra­els.

„Litið verður á hvert skot sem Hút­ar skjóta hér eft­ir sem skotið sé með vopn­um og frá stjórn­völd­um ÍRANS og ÍRAN verður gert ábyrgt og mun finna fyr­ir af­leiðing­un­um,“ skrif­ar Trump á sam­fé­lags­miðil sinn, Truth Social, í dag.

Öllum árás­um svarað af krafti

Banda­ríkja­her hef­ur gert reglu­leg­ar gagnárás­ir á skot­mörk á yf­ir­ráðasvæði Húta mánuðum sam­an og er það ný­lunda að Trump atyrði Íran fyr­ir árás­ir þeirra, en sú breyt­ing varð nú í kjöl­far árás­ar Banda­ríkja­manna á skot­mörk í Jemen á laug­ar­dag­inn sem varð 53 að bana og særði 98.

Sem svar við árás­inni gerðu Hút­ar tvær árás­ir á banda­rískt flug­móður­skip auk þess að blása til fjöl­mennra mót­mæla í þeim hlut­um Jemen sem lúta þeirra stjórn. Voru þetta fyrstu árás­ir þeirra á sjóför á Rauðahafi síðan 19. janú­ar.

„Öllum frek­ari árás­um eða hefnd­araðgerðum af hálfu Húta verður svarað af full­um krafti,“ skrifaði Trump enn frem­ur í pistli sín­um og bætti því við að Íran hefði tekið sér hlut­verk „sak­lausa fórn­ar­lambs­ins“ í vær­ing­un­um.

Að auki hef­ur Trump kraf­ist þess að kjarn­orku­sam­komu­lag við Íran verði end­ur­nýjað í krafti há­marksþving­ana af hálfu for­set­ans.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert