Seldu nýlega verslunina sem Rússar eru taldir hafa kveikt í

Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir byggðu upp verslunarrekstur IKEA í …
Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir byggðu upp verslunarrekstur IKEA í Eystrasaltslöndunum í rúmlega áratug, en seldu svo reksturinn til móðurfélags IKEA á seinni hluta síðasta árs.

Sak­sókn­ar­ar í Lit­há­en hafa sakað leyniþjón­ustu rúss­neska hers­ins, GRU, um að bera ábyrgð á íkveikju í IKEA-versl­un í Viln­íus á síðasta ári, en sak­sókn­ar­arn­ir segja að þetta hafi verið hryðju­verk.

Um er að ræða eina af versl­un­um IKEA í Eystra­saltslönd­un­um, en þangað til síðasta haust voru það bræðurn­ir Sig­urður Gísli og Jón Pálma­syn­ir sem voru eig­end­ur þeirra. Seldu þeir rekst­ur­inn í ág­úst til In­ter IKEA Group eft­ir að hafa byggt upp rekst­ur í Eistlandi, Lett­landi og Lit­há­en í 12 ár. Bræðurn­ir hafa um langt skeið átt rekst­ur IKEA á Íslandi, en í síðasta mánuði var greint frá því að Jón hefði keypt bróður sinn út úr þeim rekstri og væri nú einn eig­andi IKEA á Íslandi.

Lit­há­en hef­ur verið traust­ur bandamaður úkraínskra yf­ir­valda frá því Rúss­ar réðust inn í Úkraínu í fe­brú­ar 2022. Yf­ir­völd í Lit­há­en hafa oft varað við til­raun­um til skemmd­ar­verka sem Rúss­ar hafa staðið að baki.

Í gær sakaði rík­is­sak­sókn­ari Lit­há­ens GRU um íkveikj­una sem átti sér stað í Viln­íus í maí 2024. Eng­an sakaði í eld­in­um.

En sak­sókn­ar­inn Arturas Ur­bel­is sagði við blaðamenn: „Við lít­um á þetta sem hryðju­verk sem hafði al­var­leg­ar af­leiðing­ar.“

Tveir úkraínsk­ir rík­is­borg­ar­ar hand­tekn­ir

Tveir úkraínsk­ir rík­is­borg­ar­ar voru grunaðir um IKEA-íkveikj­una, ann­ar þeirra var hand­tek­inn í Lit­há­en og hinn í Póllandi, bætti Ur­bel­is við.

„Það hef­ur verið staðfest að í gegn­um röð milliliða [...] að skipu­leggj­end­ur þessa glæps eru í Rússlandi og þetta teng­ist leyniþjón­ustu hers­ins og ör­ygg­is­sveit­um,“ sagði Ur­bel­is enn frem­ur.

„Ljóst við hvern er að eiga“

Kestut­is Bu­drys, ut­an­rík­is­ráðherra Lit­há­ens, tók í svipaðan streng í færslu sem hann birti á X og sagði: „Eðli Kreml­verja til að beita hryðju­verk­um hef­ur verið staðfest enn og aft­ur. Það er ljóst við hvern við erum að eiga.“

Sak­sókn­ara­embættið seg­ir að sá sem var hand­tek­inn í Lit­há­en hafi verið grunaður um að hafa farið til Pól­lands vorið 2024.

Kveikt í mörg­um versl­un­um

„Á leynifundi í Var­sjá samþykkti hann og ann­ar ein­stak­ling­ur að kveikja í og sprengja versl­un­ar­miðstöðvar í Lit­há­en og Lett­landi fyr­ir 10.000 evr­ur,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu embætt­is­ins.

„Kveikt hef­ur verið í fleiri en einni stór­versl­un, og ekki aðeins í stór­versl­un­um,“ sagði Ur­bel­is þegar hann var spurður um hvort íkveikj­an tengd­ist svipuðum mál­um í ná­granna­landi Pól­lands.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert