Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem er undir stjórn Hamas, segir Ísraelsher hafa drepið yfir 330 íbúa á Gasaströndinni í loftárás í nótt.
Þetta mun vera mannskæðasta árásin á svæðinu frá því að vopnahléið átti að taka gildi.
„Flest eru konur og börn. Hundruð eru særðir, tugir liggja þungt haldnir,“ segir Mohammed Zaqut, yfirmaður ráðuneytisins.
Samkvæmt heimildarmönnum AFP-fréttastofunnar á Gasa féll yfirmaður innviðaráðuneytis Hamas í árásinni, hershöfðinginn Mahmud Abu Watfa. Hann var yfirmaður lögreglunnar og öryggissveita á Gasa.
í yfirlýsingu frá varnarmálaráðherra Ísraels segir að ríkið muni halda áfram að berjast á Gasa á meðan að ekki er búið að afhenda alla gíslana sem teknir voru í hryðjuverkunum 7. október.
Skrifstofa forsætisráðherrans segir að árásin hafi verið fyrirskipuð eftir að „Hamas neitaði ítrekað að sleppa gíslunum og höfnuðu öllum tillögum sem hafa borist frá sendifulltrúa Bandaríkjaforseta Steve Witkofff og öðrum samningamönnum“.
Hvíta húsið hefur staðfest að Ísrael hafi ráðfært sig við ríkisstjórn Donalds Trumps áður en árásin hófst.