Frans páfi þarf ekki lengur að nota súrefnisgrímu og er ástand hans sagt vera batnandi. Páfinn hefur legið inni á sjúkrahúsi síðastliðinn mánuð vegna lungnabólgu í báðum lungum.
Var ástand hans talið á einum tímapunkti lífshættulegt.
„Ástand heilags föður er batnandi,“ sagði í tilkynningu frá Vatíkaninu. Sagði þar jafnframt að páfinn hefði tekið framförum í hreyfifærni og að öndunarfæraæfingar hans væru farnar að skila sér.
Er þá tekið fram í tilkynningunni að þrátt fyrir að páfinn styðjist ekki lengur við súrefnisgrímu er ekki útilokað að hann muni þurfa hana á ný. Útskrift páfans af sjúkrahúsinu er ekki yfirvofandi, að sögn Vatíkansins.
Vatíkanið hefur sent frá sér reglulegar uppfærslur á ástandi páfans undanfarnar vikur en í ljósi batnandi ástands hans mun næsta uppfærsla ekki koma fyrr en á mánudag í næstu viku.