Sturgeon hreinsuð af ásökunum um fjársvik

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP

Nicola Stur­geon, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra skosku heima­stjórn­ar­inn­ar, hef­ur verið hreinsuð af ásök­un­um um fjár­mála­m­is­ferli í kjöl­far rann­sókn­ar á fjár­mál­um Skoska þjóðarflokks­ins (SNP) sem hef­ur staðið yfir lengi. Frá þessu grein­ir skoska lög­regl­an.

Fyrr­ver­andi eig­inmaður henn­ar hef­ur aft­ur á móti mætt fyr­ir dóm­ara til að svara til saka vegna ákæru um fjár­drátt.

Stur­geon, sem er fyrr­ver­andi leiðtogi SNP, og Col­in Beattie, sem var gjald­keri flokks­ins, voru bæði hand­tek­in árið 2023 en þau voru aft­ur á móti aldrei ákærð.

Í yf­ir­lýs­ingu frá lög­regl­unni seg­ir að rann­sókn máls­ins, sem sneri að fjár­mál­um SNP, hafi nú verið til lykta leidd.

Lög­regl­an nefn­ir ekki nöfn þeirra Stur­geon og Beattie í yf­ir­lýs­ing­unni held­ur seg­ir að 73 ára gam­all maður hafi verið hand­tek­inn 18. apríl 2023 og 54 ára göm­ul kona 11. júní sama ár. Tekið er fram að þau hafi ekki verið ákærð og séu ekki leng­ur til rann­sókn­ar.

Peter Mur­rell, fyrr­ver­andi eig­inmaður Stur­geon, er fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri SNP. Hann mætti fyr­ir dóm í Ed­in­borg í dag þar sem hann hef­ur verið ákærður í tengsl­um við meint­an fjár­drátt.

Stur­geon til­kynnti fyrr á þessu ári að þau hefðu ákveðið að skilja.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert