Bjóða peninga fyrir undirskriftir

America Pac er herferðarhópur Musks.
America Pac er herferðarhópur Musks. AFP

America Pac, her­ferðar­hóp­ur Elon Musks, seg­ist munu gefa kjós­end­um í Wiscons­in-ríki 100 doll­ara, eða rúm­lega 13.000 krón­ur, setji þeir nafn sitt á und­ir­skrift­arlista sem er gegn aðgerðasinnuðum dómur­um.

Her­ferðar­hóp­ur­inn var stofnaður til að styðja við Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta í kosn­ing­un­um vest­an­hafs á síðasta ári. 

Þá fá kjós­end­ur sömu upp­hæð í hvert skipti sem þeir vísa á aðra sem einnig setja nafn sitt á list­ann.

Eru kjós­end­ur hvatt­ir til að skrifa und­ir fyr­ir 1. apríl, en þá verður kos­inn nýr hæsta­rétt­ar­dóm­ari í rík­inu.

Al­rík­is­dóm­ar­ar gert Trump erfitt fyr­ir

Hafa al­rík­is­dóm­ar­ar í Banda­ríkj­un­um gert Trump erfitt fyr­ir að koma stefnu­mál­um sín­um í gegn síðan hann tók við embætti for­seta.

T.a.m. bannaði al­rík­is­dóm­ar­inn James E. Boasberg Trump-stjórn­inni að not­ast við tvö hundruð ára göm­ul stríðslög til að senda út­lend­inga úr landi 15. mars. Þrátt fyr­ir það sendu Banda­rík­in rúm­lega 200 meinta glæpa­menn til El Sal­vador.

Á þriðju­dag kallaði Trump Boasberg m.a. vand­ræðagemling og æs­inga­mann.

Eiga að túlka lög eins og þau eru skrifuð

Styður America Pac við íhalds­sama fram­bjóðand­ann Brad Schi­mel í kosn­ing­unni um dóm­ara­sætið.

„Dóm­ar­ar ættu að túlka lög eins og þau eru skrifuð, ekki end­ur­skrifa þau svo þau henti þeirra per­sónu­legu eða póli­tísku stefn­um,“ skrif­ar her­ferðar­hóp­ur­inn í færslu á X.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hóp­ur­inn býður kjós­end­um pen­inga fyr­ir und­ir­skrift en sér­fræðing­ar hafa talið að slíkt út­spil sé ólög­legt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert