Glæpatíðni hrundi með hraðbanka í Ósló

Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir rán við hraðbankann umdeilda í …
Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir rán við hraðbankann umdeilda í Grønland. Með brotthvarfi bankans hrundi glæpatíðnin á svæðinu þar umhverfis. Myndskeið/Lögreglan í Ósló/öryggismyndavél

Hraðbanki nokk­ur í Grøn­land-hverf­inu í Ósló olli straum­hvörf­um í fíkni­efna­sölu og of­beldi þegar hann var ein­fald­lega fjar­lægður á dög­un­um, enda hafði þá komið í ljós við eft­ir­grennsl­an borg­ar­yf­ir­valda að bank­inn var aldrei lög­lega staðsett­ur þar sem hann stóð.

Grøn­land-hverfið er með þeim lit­rík­ari í norsku höfuðborg­inni. Ægir þar sam­an menn­ing­ar­straum­um frá öll­um heim­in­um, inn­flytj­end­ur reka mat­vöru­versl­an­ir og fram­andi veit­ingastaði, Akers-áin renn­ur þar í gegn og set­ur svip sinn á hverfið, þar er ein stærsta moska Ósló­ar og fjöl­breyti­leiki eins borg­ar­hverf­is í Nor­egi verður lík­ast til ekki meiri.

En Grøn­land líður einnig fyr­ir hæstu glæpatíðni í Ósló þótt al­mennt sé ekki hættu­legt að ganga þar um göt­ur, fíkni­efna­sala er þar einna mest í borg­inni eft­ir að hin ann­álaða „Plata“, öðru nafni Christian Frederiks plass, skammt frá aðal­braut­ar­stöðinni Oslo S, lagðist af sem fíkni­efna- og einkum heróín­markaður Ósló­ar og sal­an færðist að miklu leyti inn í hverf­in Grøn­land og Grüner­løkka.

Maðkur í mysu leyf­is­mála

Nán­asta um­hverfi hraðbanka á þess­um stærstu markaðssvæðum fíkni­efna í Ósló hafa smám sam­an orðið mjög viðsjár­verð, rán og lík­ams­árás­ir verið þar tíð og önn­ur óár­an. Síðustu ár hef­ur hraðbönk­um í borg­inni fækkað mjög vegna þverr­andi notk­un­ar reiðufjár og er nú svo komið að stór alþjóðleg einka­fyr­ir­tæki sem tengj­ast ekki norsku bönk­un­um halda mörg­um hraðbank­anna úti, svo sem Euronet og Loom­is.

Er farið var að rýna í leyf­is­mál á bak við hraðbank­ann, sem hér seg­ir af, kom í ljós að aldrei hafði verið sótt um leyfi fyr­ir að setja hann upp á þess­um til­tekna stað. Það leyfi hefði Skipu­lags- og bygg­ing­ar­stofn­un Ósló­ar átt að gefa út, en þar á bæ var eng­inn spurður og ekki sótt um neitt leyfi.

Var bank­an­um því lokað í skyndi og við það hrundi glæpatíðni í nokk­ur hundruð metra radíus, rán­um og lík­ams­árás­um snar­fækkaði og ró færðist yfir þenn­an hluta Grøn­land sem gleður Lasse Johnsen yf­ir­lög­regluþjón ósegj­an­lega.

„Þetta er svæði sem fólk hef­ur kvartað yfir að það upp­lifi sig óör­ugg­ara á en ann­ars staðar í borg­inni,“ sagði Johnsen í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK í des­em­ber er hið róst­ur­sama um­hverfi hraðbank­ans var til umræðu. Þá hafði lög­regla borg­ar­inn­ar farið þess á leit að nokkr­ir hraðbank­ar í borg­inni yrðu lagðir af.

Hvorki ánægður með lög­reglu né borg

„Rán, of­beldi og óeirð rík­ir við hraðbank­ana, sér­stak­lega á þeim svæðum þar sem glæpatíðnin er hve hæst,“ sagði yf­ir­lög­regluþjónn­inn enn frem­ur og kveðst í viðtali við NRK nú í dag fagna þessu fram­taki af öllu hjarta.

Bar­tek Szczesniak, arki­tekt hjá arki­tekta­stof­unni Ramme Arki­tekt­er, en stof­an stóð á sín­um tíma að um­sókn um rekstr­ar­leyfi fyr­ir hraðbank­ann um­deilda, er hvorki ánægður með fram­göngu lög­regl­unn­ar né Ósló­ar­borg­ar í mál­inu.

„Ég tel þetta rangt mat. Hér er ekk­ert til­lit tekið til þess að fólk þurfi um lang­an veg að fara til þess að taka út reiðufé,“ seg­ir arki­tekt­inn við NRK. Engu að síður reikn­ar hann ekki með að stof­an leggi fram kæru vegna brott­hvarfs bank­ans. „Það yrði þung­ur róður með mikl­um kostnaði. Slíkt yrði bara stríð við yf­ir­völd,ׅ“ seg­ir arki­tekt­inn.

Lög­regl­an kveðst öngv­an veg­inn vilja fjar­lægja alla hraðbanka af göt­um borg­ar­inn­ar, hins veg­ar þurfi þeir sem standi á miðjum at­hafna­svæðum sölu­manna fíkni­lyfja ein­fald­lega að víkja.

NRK

NRK-II (rán, dóp og skjót­fengið fé)

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert