Hryðjuverkavarnardeild bresku lögreglunnar hóf í dag rannsókn á eldinum sem varð í raforkudreifistöð sem leiddi til þess að loka þurfti Heathrow-flugvelli með tilheyrandi röskunum fyrir ferðamenn um allan heim.
Atvikið varð til þess að fjölmörgum flugferðum var aflýst en flugvöllurinn er sá fjölfarnasti í Evrópu.
Heathrow þjónar flugfélögum sem fljúga til um 80 landa og í dag áttu um 1.350 flugvélar að lenda eða hefja sig til flugs frá vellinum að því er segir á vefsíðunni Flightradar24 sem fylgist með flugumferð á netinu.
Daglega fara um 230.000 farþegar um völlinn eða um 83 milljónir á ári.
Lögreglustjórinn í London sagði að hryðjuverkavarnadeild lögreglunnar stýrði rannsókninni þar sem atvikið hafi haft áhrif á mikilvæga innviði í Bretlandi.
„Þó að ekkert bendi til saknæms athæfis að svo stöddu, þá erum við með opinn huga á þessu stigi,“ bætti hann við.