Brenndi eiginkonu sína lifandi

Mótmælendur við dómshúsið í Bordeaux fyrr í dag.
Mótmælendur við dómshúsið í Bordeaux fyrr í dag. AFP

Rétt­ar­höld hóf­ust í Frakklandi í dag yfir Moun­ir Boutaa, 48 ára fransk-als­írsk­um manni, sem er sakaður um að hafa myrt fyrr­ver­andi konu sína árið 2021 með því að brenna hana lif­andi.

Vinnu­brögð frönsku lög­regl­unn­ar hafa einnig vakið at­hygli í mál­inu en lög­regl­an þótti ekki grípa til full­nægj­andi ráðstaf­ana til að vernda kon­una.

AFP-frétta­veit­an grein­ir frá því að Boutaa hafi, eft­ir sam­bands­slit þeirra hjóna árið 2021, farið að elta eig­in­konu sína, Chahinez Daoud, sem var 31 árs og þriggja barna móðir.

Keypti hann t.a.m. sendi­bíl sem hann lagði fyr­ir utan heim­ili henn­ar svo að hann gæti fylgst með henni án þess að hún vissi af því.

Hellti yfir hana bens­íni og kveikti í 

Þann 4. maí sama ár réðst Boutaa á Daoud á göt­unni, skaut hana í báða fæt­ur, hellti yfir hana bens­íni og kveikti í henni.

Ná­granni sem heyrði ösk­ur Daoud reyndi að bjarga henni en án ár­ang­urs.

Boutaa tók hluta árás­ar­inn­ar upp á mynd­skeið. Hann var hand­tek­inn skömmu síðar og sagði við lög­reglu að hann hefði viljað brenna Daoud fyr­ir „allt sem hún og dóms­kerfið gerðu“.

Hann neitaði þó að hafa ætlað sér að drepa hana. Hann hafi aðeins viljað refsa henni með því að brenna hana lít­il­lega þannig að ör myndu sjást á henni.

Rann­sökuðu mis­tök lög­regl­unn­ar 

Boutaa var lát­inn laus úr fang­elsi í lok árs 2020 eft­ir að hafa tekið Daoud hálstaki og hótað henni með hníf. Þá hafði hann einnig verið sakaður um heim­il­isof­beldi af fyrri maka.

Nálg­un­ar­bann var gefið út á hend­ur hon­um en hjón­in tóku aft­ur sam­an og bjuggu sam­an þar til í mars 2021, en þá lagði hún fram aðra kvört­un til lög­regl­unn­ar vegna Boutaa.

Komust rann­sak­end­ur máls­ins að því að meðhöndl­un kvört­un­ar Daoud af hálfu lög­reglu­manns, sem sjálf­ur hafði verið fund­inn sek­ur um heim­il­isof­beldi skömmu áður, hafi verið veru­lega ábóta­vant og hófst því rann­sókn á mis­tök­um lög­regl­unn­ar í mál­inu.

Kom þá í ljós að Daoud hafði t.a.m. ekki fengið svo­kallaðan hættusíma sem myndi gera henni kleift að fá beint sam­band við yf­ir­völd ef þörf væri á. Þá var Boutaa ekki lát­inn bera ökkla­band sem myndi gera lög­regl­unni kleift að greina ferðir hans í ná­grenni henn­ar.

Fjöl­skyld­an höfðað mál gegn franska rík­inu

Leiddi rann­sókn­in til refsiaðgerða gegn fimm lög­reglu­mönn­um og hef­ur fjöl­skylda Daoud höfðað mál gegn franska rík­inu fyr­ir þau al­var­legu mis­tök sem gerð voru.

Þá voru tug­ir manna mætt­ir fyr­ir utan dóms­húsið í Bordeaux fyrr í dag til að mót­mæla meðferð máls­ins, en þar fara rétt­ar­höld­in fram.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert