Viðræður Rússlands og Bandaríkjanna í Riyadh voru „erfiðar en uppbyggilegar“, sagði Grigory Karasin, fulltrúi Rússa í viðræðunum, við rússneska miðla.
Vladimir Dzhabarov er einn af varamönnum Karasins í utanríkisráðuneyti Rússlands og sagðist hann hafa talað við Karasin fyrr í morgun, hann hafi þá verið við það að yfirgefa Sádi-Arabíu í kjölfar samningaviðræðna við Bandaríkjamenn.
Að sögn Dzhabarov er búist við að rússneska sendinefndin lendi í Moskvu í kvöld.
BBC greinir frá.
Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu komu saman til fundar í Riyadh í Sádi-Arabíu í gær, til viðræðna um einhvers konar vopnahlé í innrásarstríði Rússa.
Viðræðum var haldið áfram í gær með fulltrúum Rússa og Bandaríkjanna í Riyadh í Sádi-Arabíu. Rússneskir miðlar greindu frá því í gær að sameiginleg yfirlýsing yrði birt í dag.
Úkraínskir og bandarískir embættismenn áttu í frekari viðræðum í Riyadh í dag, að sögn úkraínsks heimildarmanns AFP, degi eftir um tólf klukkustunda fund Rússa og Bandaríkjamanna í gær.
„Við erum enn að vinna með Bandaríkjamönnum,“ sagði meðlimur í úkraínsku sendinefndinni við lítinn hóp fjölmiðla, þar á meðal blaðamann AFP.