Sextán ára gamall drengur sem skaut 35 ára gamlan mann til bana í Solna, norðvestur af Stokkhólmi, vorið 2023 hlaut í dag tæplega níu ára fangelsi fyrir Hæstarétti Svíþjóðar í fordæmismáli þar sem Hæstiréttur sló því föstu að afbrotamenn undir lögaldri gætu sætt þungum fangelsisrefsingum fyrir alvarleg brot, ekki einvörðungu vistunum á unglingaheimilum.
Fyrir héraðsdómi hlaut sakborningurinn fimm ára dóm og var einn fjögurra samverkamanna sem sættu ákæru í málinu, en hann var ákærður fyrir manndráp og stórfellda líkamsárás.
Rökstuddi Hæstiréttur dóm sinn yfir aðalákærða með því að vistun á unglingaheimili teldist engan veginn hæfileg refsing fyrir svo alvarlegt brot sem ákært var fyrir, þar sem fjórir sakborningar höfðu sammælst og lagt á ráðin um að koma fórnarlambi sínu fyrir kattarnef.
Fram til þessa hefur meginreglan hvað refsingar ólögráða brotamanna á aldursskeiði 15 til 17 ára í Svíþjóð varðar verið að lífstíðarfangelsi teljist 18 ár, en dómaframkvæmd fram til þessa hefur almennt verið á þann veg að ungur aldur sakbornings teljist honum til refsilækkunar og komi þá til frádráttar frá 18 ára hámarkinu.
Hæstiréttur sló því föstu með dómi sínum í dag að þyngri refsing í alvarlegum brotamálum geti haft almenn varnaðaráhrif er um sérstaklega alvarleg afbrot er að ræða.
SVT-II (frétt af skotárásinni vorið 2023)