Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá því í dag að Bretar og Frakkar hefðu nú forgöngu um að senda hjálparlið til Úkraínu eftir að átökum Rússa og Úkraínumanna lýkur, með hvaða hætti sem það verður.
„Þessar styrktarsveitir eru bresk-franskt tilboð sem Úkraínumenn hafa óskað eftir,“ sagði forsetinn eftir að leiðtogafundinum í París lauk í dag, en þar komu leiðtogar 27 Evrópuþjóða saman til að ræða hvernig rétta mætti stríðshrjáðri þjóð hjálparhönd.
Sagði Macron að ekki hefði náðst einróma samstaða um liðsaukann á fundinum, en þess væri heldur ekki þörf. Sendinefnd á vegum Bretlands og Frakklands færi til Úkraínu á næstu dögum þar sem lögð yrðu á ráðin.
Lagði Macron áherslu á að ekki yrði um friðargæslulið að ræða og hermennirnir frá Evrópuríkjunum yrðu ekki afleysingalið fyrir Úkraínuher á vígstöðvunum.
Þá kæmu herir allra bandalagsþjóðanna ekki til með að eiga sér fulltrúa í aðstoðarliðinu. Sumar þjóðir hefðu einfaldlega ekki svigrúm til þess og aðrar sendu ekki herlið af pólitískum ástæðum.
Sagði Macron að lokum að fundurinn hefði ályktað að þeir Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands kæmu í sameiningu til með að hafa hönd í bagga með evrópsku herliði sem í sameiningu ynni að stöðugum friði til langframa.