Yfir 150 manns hafa látist eftir jarðskjálftana sem riðu yfir miðhluta Mjanmar í dag. Enn fleiri eru særðir, og tugir eru fastir í húsarústum. Gert er ráð fyrir að dánartalan hækki.
Fyrri skjálftinn mældist 7,7 að stærð, og tólf mínútum síðar fylgdi annar, 6,4 að stærð.
Jarðskjálftarnir fundust greinilega í Bangkok í Taílandi, þar sem ókláruð bygging hrundi í kjölfarið. Um 320 starfsmenn voru í byggingunni á þeim tíma.
Leiðtogi herforingjastjórnarinnar í Mjanmar, Min Aung Hlaing, greinir frá því að 144 hafi látist og 732 hafi særst. Hann varar þó við að dánartalan gæti hækkað enn frekar.
Átta dauðsföll hafa einnig verið staðfest í Taílandi, og búist er við að sú tala hækki.
Hlaing hefur boðið öllum þjóðum og stofnunum sem vilja veita aðstoð að koma til Mjanmar til að hjálpa við björgunar- og hjálparstarf.