Donald Trump Bandaríkjaforseti varð fyrir höggi þegar íbúar í Wisconsin í Bandaríkjunum kusu frjálslyndan dómara í hæstarétt ríkisins.
Þetta gerðist þrátt fyrir að auðkýfingurinn Elon Musk, sem er einnig náinn ráðgjafi forsetans, hefði eytt 25 milljónum dala, sem jafngildir um 3,3 milljörðum króna, til að reyna að hafa áhrif á úrslitin.
Frjálslyndi dómarinn Susan Crawford sigraði Brad Schimel með yfirburðum þegar meira en 95 prósent atkvæða höfðu verið talin. Schimel er stuðningsmaður Trumps.
„Wisconsin reis á fætur og sagði hátt og skýrt að réttlætið hefur ekki verðmiða,“ sagði Crawford í sigurræðu sinni, en þetta voru dýrustu dómarakosningar í sögu Bandaríkjanna.
Repúblikanar höfðu lagt allt kapp á að snúa niðurstöðunni sér í vil en án árangurs. Musk heimsótti m.a. ríkið auk þess að leggja til fyrrgreinda fjárhæð.
„Langtímasvindl vinstri manna er spilling innan dómskerfisins,“ sagði Musk í færslu sem hann birti á samfélagsmiðli sínum X eftir að niðurstaðan varð ljós.