Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt 90 daga hlé á nýjum tollum sem tóku gildi í nótt. Tíu prósent grunnlína verður á tollum á tímabilinu, fyrir öll lönd nema Kína, sem mun sjá enn hærri álagningu.
„Byggt á virðingarskortinum sem Kína hefur sýnt heimsmarkaðnum, hækka ég hér með tollana sem Bandaríkin innheimta af Kína í 125% og tekur það gildi um leið,“ skrifaði Trump á Truth Social, en kínverska fjármálaráðuneytið greindi frá því í dag að 84 prósenta tollur á bandarískar vörur taki gildi á morgun.
Sagði Trump yfir 75 lönd hafa beðið um samningaviðræður við Bandaríkin um tollana, því hafi hann „heimilað 90 daga HLÉ og verulega lægri tolla á þessu tímabili, um 10%, sem gildir einnig um leið“.