Flækir umsóknarferlið

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkkunarmála ESB, er einarður í afstöðu sinni til einhliða upptöku evru í viðtali sem fram fór í Brussel. „Afstaða ESB er mjög skýr. Við styðjum ekki eða samþykkjum einhliða upptöku evru. Fyrir venjulegt þróað ríki í Evrópu, sem stefnir kannski að aðild að ESB, stendur aðeins hefðbundna leiðin til boða, sem er að uppfylla aðlögunarákvæðin sem kveðið er á um í Maastrichtsáttmálanum.

Í tilfelli Svartfjallalands voru aðstæður sérstakar og tengdust hörmulegu stríði í Júgóslavíu á tíunda áratugnum og þeirri staðreynd að Svartfjallaland notaði upphaflega þýska markið sem sinn gjaldmiðil, þannig að þegar evran var tekin upp tók Svartfjallaland evruna upp í staðinn. Aðstæður voru því mjög frábrugðnar og ekki draga neinar jákvæðar ályktanir af því tilfelli, hvað Ísland varðar."

- Telur þú að það myndi flækja umsóknarferlið ef Ísland myndi sækja um aðild að ESB og með hliðsjón af því, hvernig takið þið á umsókn Svartfjallalands?

„Vissulega myndi það flækja það og ég treysti því að Ísland geri þetta ekki, þannig að ég vil ekki vera með frekari vangaveltur þar að lútandi. Staðreyndin er sú að ef Ísland sækir um aðild að ESB og markar skýra stefnu um að verða aðili að evrusvæðinu líta fjármálamarkaðir yfirleitt til þess og aðrir áhrifavaldar í efnahagslífinu, og áhrifa þess gæti mun fyrr en kemur að því að Ísland fái aðild að evrusvæðinu.

Þannig hefur þróunin verið í flestum evruríkja frá því síðla á tíunda áratugnum, til dæmis í evruríkinu sem ég þekki best til í, Finnlandi, sem ákvað að sækja um evru á seinni hluta tíunda áratugarins. Og í því fólst veruleg hjálp við að yfirstíga fjármálakreppuna fyrir tíu árum,
jafnvel þótt evrusvæðið væri þá ekki orðið að veruleika. Þetta snýst um að marka stefnu og hversu trúverðugt það er að þeirri stefnu sé fylgt einarðlega.

Hvað Svartfjallaland varðar hefur Evrópuráðið kveðið skýrt á um að undirskrift samkomulags um undirbúning að aðild Svartfjallalands að ESB hafi einungis verið gerð með fyrirvara um að það skilyrði ekki afstöðu ESB í mögulegum aðildarviðræðum við Svartfjallaland. Svo það er sérstakt dæmi og ekki hægt að yfirfæra það á Ísland."

Rehn segir ómögulegt er að tímasetja það nákvæmlega hvenær Íslendingar geti tekið upp evru með aðild að ESB. „Það fer eftir því hvernig Íslandi gengur að uppfylla Maastricht-skilyrðin og veltur því ekki aðeins á ESB heldur einnig á íslenskum stjórnvöldum. En ferlið gengur þannig fyrir sig í grófum dráttum að fyrst sækja ríki um aðild að ESB, þá hefjast samningaviðræður og svo ganga þau í ESB. Í undirbúningsferlinu lýsa þau yfir ásetningi um að fá aðild að myntbandalaginu og uppfylla síðan Maastricht-skilyrðin, sem eru hornsteinn myntbandalagsins, svo þetta ferli tekur nokkur ár."


mbl.is