„Ég er ekki einn um þá skoðun í Finnlandi að leggja beri áherslu á samstarf ríkjahópa í alþjóðasamtökum, hvaða nafni sem þau nefnast. Ríkin í ríkjahópunum hafa sem hópur meira að segja en hvert fyrir sig. Saman erum við sterkari. Það vantar tvö mikilvæg brot í norrænu myndina, ykkur Íslendinga og Norðmenn," segir Pertti Torstila, fyrrverandi sendiherra Finnlands í Svíþjóð, sem telur þörf á framlagi ríkjanna tveggja í samstarfi ESB.
„Við þurfum á ykkur að halda. Hin Norðurlöndin þurfa á ykkur að halda. Innganga ykkar myndi um leið styrkja vægi Norðurlandanna í ESB. Suður-Evrópuríkin eru mjög áhrifamikil í sambandinu. Þetta er vitaskuld ekki samkeppni á milli norðurs og suðurs [...] Sögulega séð hefur ESB verið stofnun þar sem þungamiðjan hefur legið í suðri. Við viljum breyta því. Áhrif Norðurlandanna hafa aukist verulega á síðustu tíu árum með inngöngu Svía, Dana, Finna og Eystrasaltsríkjanna í sambandið."
Af hverju myndi vægi Norðurlandanna aukast með inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Af hverju myndi innganga jafn lítillar þjóðar hafa þessi áhrif?
„Sérhvert aðildarríki hefur jafn mikið að segja. Þau eru 27 í dag. Það eru ýmis mál þar sem ákvarðanir eru teknar í sameiningu og þar gæti rödd Íslands vegið afar þungt. Ég held að hugarfar okkar og Íslendinga sé svipað," segir Torstila, sem bendir á að í hugum margra Mið-Evrópumanna liggi endimörk Evrópu til norðurs í Danmörku. Handan hennar byrji túndran, há-norðrið, sem hann nefnir svo.
Norðrið komið á kortið
Á hvaða sviðum gæti Ísland lagt sitt af mörkum til ESB?
„Okkur hefur tekist að setja norðurhluta álfunnar á kortið í hugum Mið-Evrópuþjóðanna. Með inngöngu Íslands yrði sú mynd skýrari, fullkomnari. Þið Íslendingar vitið betur en við Finnar hvað þið hafið fram að færa."
Hver yrði hagur Íslendinga af inngöngunni?
„Miðað við reynslu Finna af aðildinni á síðustu þrettán árum geng ég út frá því að Íslendingar myndu hafa mikinn hag af inngöngunni."
Af hverju?
„Við höfum lært marga lexíuna. Öryggishliðin, að tilheyra einhverju ábyggilegu, hefur haft mikla þýðingu. Fyrir fall Berlínarmúrsins og hrun kommúnismans höfðum við alltaf verið milli tveggja heima, austurs og vesturs [...] Þegar við gengum í Evrópusambandið skilgreindum við okkur ekki lengur sem hlutlausa," segir hann og vísar til að böndin hafi verið treyst til vestursins til langframa.Öryggishliðin vó þungt
Ekki þarf að ræða við marga Finna um aðildina að Evrópusambandinu til að heyra um mikilvægi sambandsins við grannann í austri.
Torstila rifjar þetta upp þegar hann segir önnur rök hafa verið fyrir aðildinni í Finnlandi en í Svíþjóð. Í Finnlandi hafi öryggishliðin vegið þungt, þótt ESB sé að sjálfsögðu ekki varnarbandalag.
„Frá sjónarhóli einingar eru þetta gríðarlega mikilvæg samtök. Þjóðríki verða ekki látin ein á báti. Við treystum á það."
Hann minnir á návígi Finna og Rússa þegar hann er spurður um það sjónarmið að hættan af Rússum sé ofmetin, í ljósi minni slagkrafts á sviði hernaðar en á dögum Sovétríkjanna.
„Við Finnar sjáum ekki fram á aukna hernaðarógn úr austri og við eigum fjórtán hundruð kílómetra landamæri að Rússlandi."
Spurður um framlag Finna til Evrópusambandsins vitnar Torstila aftur til þessa návígis.
„Ég verð að segja að þekking Evrópusambandsins á málefnum Rússlands risti ekki djúpt. Það liggur í augum uppi að Finnar vita meira um rússneska menningu og þjóðarsál en til dæmis Möltubúar eða Portúgalir. Jafnframt hefur granninn okkar í austri svo mikil áhrif í Evrópu. Finnar hafa verið brúarsmiðir milli Rússa og ESB."
Inntur eftir því sjónarmiði að sambandið sé að þróast í átt til heimsveldis kveðst Torstila sjá þess „engin merki". Hann telur eðlilegt að margir Finnar gagnrýni sambandið.
„Ég er sannfærður um að á sama tíma og 50 prósent Finna segja aðspurð að aðildin að ESB hafi verið til ógagns myndu yfir 70 prósent vera andvíg því að ganga úr sambandinu, ef spurningunni yrði snúið við. Þegar ríki hefur fengið aðild er eðlilegt að af stað fari umræður um hvort betra sé að standa innan sambandsins eða utan þess."