Forystuafl í loftslagsmálum

Hugi Ólafsson
Hugi Ólafsson

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, lítur svo á að Evrópusambandið hafi verið leiðandi í loftslagsmálunum á heimsvísu.

„Evrópusambandið hefur öðrum fremur haft pólitískt frumkvæði á alþjóðavísu í loftslagsmálum á undanförnum árum, sem hefur meðal annars komið fram í baráttu á sínum tíma við að tryggja að Kýótó-bókunin gengi í gildi og síðan í því að koma á fót nýjum viðræðum um alþjóðlegt samkomulag, sem taki við að loknum gildistíma Kýótó-bókunarinnar árið 2012.

Þær viðræður hófust árið 2006, komust á fullt skrið í kjölfar Balí-fundarins í desember 2007 og á að ljúka með alþjóðlegu samkomulagi í Kaupmannahöfn í lok árs 2009," segir Hugi, sem telur sambandið hafa sent skýr skilaboð til ríkja heims um að stefna beri að samdrætti í losun gróðurhúsagasa.

„Evrópusambandið hefur unnið mikið að því að fá Bandaríkin og stór þróunarríki eins og Kína og Indland að samningaborðinu og hefur gefið tóninn um minnkun losunar á væntanlegu nýju skuldbindingartímabili með því að segjast vera tilbúið að minnka losun um 20% árið 2020 miðað við 1990 og um 30% ef önnur ríki taka þátt í bindandi alþjóðlegu samkomulagi eftir 2012."

Mun forystuhlutverkið dvína?

Hugi segir rök hafa verið færð fyrir því að breytingar séu í vændum í loftslagsmálunum, þar á meðal með tilliti til stöðu Evrópusambandsins.

„Ýmsir hafa talið að forystuhlutverk sambandsins hafi aðeins dvínað að undanförnu og að framsæknar hugmyndir í yfirstandandi samningaviðræðum hafi komið í vaxandi mæli frá öðrum aðilum. Forsetaskipti í Bandaríkjunum geta líka leitt til þess að Bandaríkin komi að nýju sterk inn í samningaviðræðurnar með nýjar hugmyndir.

Það er jákvætt og eiginlega nauðsynlegt að fleiri dragi vagninn í alþjóðlegu verkefni sem krefst samvinnu allra stærstu losenda gróður8 húsalofttegunda. ESB verður þó klárlega áfram í forystuhlutverki í loftslagsmálum, bæði diplómatískt og ekki síður í því að móta framkvæmd þeirra reglna og efnahagslegu hvata sem settar eru á grundvelli Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókunarinnar og væntanlegs arftaka hennar."

Kerfi framseljanlegra kvóta

– Hver er reynslan af viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir?

„Meginhugmyndin að baki Kýótó-bókuninni er kerfi framseljanlegra kvóta, ekki ósvipað íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu. Sett er þak á losun einstakra ríkja og viðskipti með kvóta leyfð í því skyni að nýta markaðinn til að leita hagkvæmustu lausna og hvetja til loftslagsvænnar tækniþróunar.

Slíkur alþjóðlegur markaður milli ríkja er í gangi á grunni Kýótó-bókunarinnar, en langstærsti einstaki losunarmarkaðurinn er hins vegar innri markaður ESB (ETS), sem var settur á fót 2005, áður en Kýótó-bókunin gekk í gildi. Nú eru yfir 10.000 fyrirtæki skyldug til að taka þátt í ETS – einkum á sviði orkuframleiðslu með kolum og öðru jarðefnaeldsneyti, en einnig í ýmsum framleiðsluiðnaði – sem nær yfir nær helming losunar ESB-ríkja.

Svipaðir markaðir hafa verið settir upp eða eru í mótun m.a. í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og í sumum ríkjum BNA og hafa menn horft til kerfis ESB og þeirrar reynslu sem fengin er af því. Evrópusambandið sér fyrir sér að ETS geti í framtíðinni orðið kjarninn í alþjóðlegu kerfi kolefnisviðskipta. Hvernig sem þróunin verður í því er ljóst að menn munu horfa grannt til reynslu ESB af viðskiptakerfinu og hvernig það virkar til að draga úr losun og að ná markmiðum á hagkvæman hátt.Ísland formlegur aðili að ETS

– Hver er staða Íslands m.t.t. ETS og stefnu ESB í loftslagsmálum?

„Ísland er nú formlega aðili að ETS-kerfinu ásamt Noregi og Liechtenstein, en í raun fellur ekkert fyrirtæki hér á landi undir skilgreiningar ETS eins og er. Þetta breytist þegar losun frá flugi kemur inn í viðskiptakerfið innan nokkurra ára.

Íslensk stjórnvöld eru nú að skoða hvaða áhrif nýsamþykktar tillögur ESB um loftslagsmál og orkunýtingu eftir árið 2012 munu hafa á Íslandi. Þá kemur ýmis ný starfsemi inn í kerfið, þ. á m. áliðnaður og járnblendi og því ljóst að stór hluti losunar Íslands verður í framtíðinni innan ETS."

Mun skoða áliðnaðinn 

– Hvað með áliðnaðinn?

„Evrópusambandið hyggst skoða hvort hætta sé á því að áliðnaður og skyld starfsemi flytjist frá Evrópu til annarra ríkja þar sem ekki eru viðlíka kvaðir á losun gróðurhúsalofttegunda og haga reglum þannig að ekki séu líkur á því. Sambandið telur að slíkur „leki" sé ekki einungis bagalegur fyrir iðnað í Evrópu heldur muni beinlínis hafa neikvæð áhrif á losun á heimsvísu, öfugt við kvaðir á til dæmis kolaorkuver, sem framleiða rafmagn fyrir heimamarkað og geta ekki flutt sig.

Meðal þess sem íslensk stjórnvöld eru að skoða er hvernig reglur ESB munu falla saman við nýtt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum eftir árið 2012. Stjórnvöld hafa rætt við ESB um hvaða leiðir séu færar til tryggt verði að Ísland búi við sambærilega stöðu og ESB-ríki innan þessa nýja samkomulags, í ljósi þess að stór hluti losunar Íslands mun færast undir reglur ESB eftir 2012."

Flókið úrlausnarefni

Hugi segir það munu verða flókið verkefni að fara yfir stöðu Íslands og iðnaðar hér á landi innan ETS.

„Ljóst er að það getur verið flókið tæknilegt og lagalegt úrlausnarefni, en fulltrúar ESB hafa boðist til að skoða það mál með Íslandi. Við þurfum líka að fara yfir aðra þætti í stefnu ESB, m.a. varðandi markmið þeirra um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku – ESB ætlar að ná 20% hlutfalli endurnýjanlegrar orku og 20% betri orkunýtni árið 2020 – vistvænt eldsneyti í samgöngum og reglur um skiptingu byrða milli ríkja varðandi minnkun á losun.

Ákvæði loftslags- og orkupakka ESB sem samþykktur var nú í desember geta haft bein áhrif á Íslandi í gegn um EES-samninginn og óbein, þar sem þau munu hafa áhrif á gang mála í alþjóðaviðræðunum, sem á að ljúka með nýju Kaupmannahafnar-samkomulagi í lok þessa árs," segir Hugi Ólafsson skrifstofustjóri.

mbl.is