Aðildarferli ljúki á næsta ári

Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar
Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, kvaðst að loknum fundi sínum með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í kvöld vonast til að sjást myndi í land í aðildarferli Íslendinga og Króata þegar að Spánverjar láta af formennsku í sambandinu 30. júní 2010 en þeir taka við henni um áramót.

Moratinos sagði Íslendinga ekki þurfa að óttast fiskveiðimálin þegar að Spánverjar tækju við formennskunni af Svíum. Evrópusambandið ætti rætur í kola- og stáliðnaðinum sem áður hefði sundrað álfunni og því væri engin ástæða fyrir því að ekki tækist að ná hagstæðri lendingu í málinu fyrir alla aðila.

Inntur eftir því hvort stjórn hans fyndi fyrir þrýstingi frá spænskum útgerðum um að beita sér í fiskveiðimálinu þegar forsætistíðin rennur upp var svarið einfalt nei.

Moratinos rifjaði upp fund sinn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, síðasta sumar sem hefði verið fyrsta heimsókn spænsks utanríkisráðherra til landsins til tvíhliða viðræðna.

Þær viðræður hefðu verið ánægjulegar og sagði ráðherrann spænsku stjórnina mundu gera allt sem í hennar valdi stæði til að greiða fyrir aðildarumsókn Íslendinga. Hann sæi ekkert meiriháttar atriði sem kynni að verða til að seinka umsóknarferli Íslands.

Hann sé þess algerlega fullviss um að lausn finnist á fiskveiðimálinu sem allir aðilar geti unað við.

Aðild feli í sér tækifæri fyrir Íslendinga, meðal annars á efnahagssviðinu, og mátti skilja af orðum Moratinos að hann væri að vísa til evrunnar og þeirra kosta sem fylgdu því að taka um gjaldmiðilinn.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 24. desember