Danskur nóbelsverðlaunahafi látinn

Aage Bohr.
Aage Bohr.

Danski kjarneðlisfræðingurinn Aage Bohr er látinn 87 ára að aldri. Bohr, sem var sonur danska vísindamannsins Niels Bohr en þeir hlutu báðir Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, Niels árið 1922 og Aage árið 1975.

Aage Bohr fæddist árið 1922, skömmu eftir að faðir hans hlaut Nóbelsverðlaunin. Hann ólst upp meðal kjarneðlisfræðinga því fjölskylda hans bjó í Eðlisfræðistofnuninni í Kaupmannahöfn, sem nú heitir Niels Bohr stofnunin.

Hann hóf nám í eðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla árið 1940, skömmu eftir að nasistar hernámu Danmörku.  Í september 1943 fyrirskipaði Hitler að danskir gyðingar skyldu fluttir í fangabúðir. Danska andspyrnuhreyfingin greip þá til sinna ráða og í október var flestum dönskum gyðingum, um 7300 talsins, smyglað til Svíþjóðar. Í þeim hópi var Bohr fjölskyldan. 

Feðgarnir Aage og Niels héldu þaðan til Bretlands og störfuðu hjá vísindastofnun á vegum breskra stjórnvalda. Þeir voru sendir til Bandaríkjanna og tóku þátt í vinnu við Manhattan-verkefnið svonefnda sem hafði það að markmiði að smíða kjarnorkusprengjur. Tveimur sprengjum, sem smíðaðar voru, var síðan varpað á Japan í ágúst 1945. 

Danirnir lýstu hins vegar yfir miklum efasemdum með verkefnið og vöruðu bæði Franklin Roosevelt, Bandaríkjaforseta, og Winston Churshill, forsætisráðherra Bretlands, við þeim afleiðingum, sem það myndi hafa í för með sér að beita sprengjunni. 

Bohr-feðgarnir snéru aftur til Danmerkur árið 1945 og Aage Bohr hélt áfram náami sínu. Hann lauk meistaranámi ári síðar og eftir framhaldsnám í Bandaríkjunum var hann skipaður prófessor í eðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1956. Niels Bohr lést 1962 og Aage tók þá við sem yfirmaður Eðlisfræðistofnunarinnar. Hann lét af því embætti 1967 til að einbeita sér að rannsóknum. 

Bohr hlaut síðan Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1975 ásamt tveimur öðrum eðlisfræðingum, Dananum Ben Mottelsson og Bandaríkjamanninum Leo James Rainwater. Þeir fengu verðlaunin fyrir rannsóknir á byggingu atómkjarnans.  

Bohr var tvíkvæntur og eignaðist þrjú börn með fyrri eiginkonu sinni.  

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Mánudaginn 2. desember

Sunnudaginn 1. desember

Laugardaginn 30. nóvember

Föstudaginn 29. nóvember