Bjarki og Pálmar tryggðu FH sigur

Ólafur Guðmundsson, leikmaður FH, í uppstökki.
Ólafur Guðmundsson, leikmaður FH, í uppstökki. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

FH vann Fram, 25:24, í úrvalsdeild karla í handknattleik, N1-deildinni, á ævintýralegan hátt í Kaplakrika í kvöld þar sem FH-liðið skoraði fimm síðustu mörk leiksins. Sigurmarkið skoraði gamla brýnið Bjarki Sigurðsson úr vítakasti þegar ein sekúnda var til leiksloka.

Magnús Erlendsson, markvörður Fram, var nærri því að verja skotið. Pálmar Pétursson var hin hetja FH-liðsins. Hann varði frábærlega, ekki síst á lokakaflanum, m.a. tvö vítaköst og síðan opin færi. 

60. FH-ingar tryggja sér sigur með ótrúlegum endaspretti. Þeir voru fjórum mörkum undir tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Þá breyttu þeir um varnarleik og tóku tvo leikmenn Fram úr umferð, Magnús Stefánsson og Halldór Jóhann Sigfússon. Breytingin hreif og Fram-liðið hætti að sækja eins mikið á markið. Pálmar Pétursson varði síðan þau skot sem tókst að koma á FH-markið.  Hann varði vítakast Halldórs Jóhanns þegar 1,30 mínútur voru eftir og aftur skot úr hægra horni þegar hálf mínúta var eftir. Ólafur Gústafsson vann síðan vítakast þegar fáeinar sekúndur voru eftir. Upp úr sauð hjá Fram og fengu a.m.k. tveir leikmenn liðsins rautt spjald. Bjarki skoraði síðan sigurmarkið úr vítakastinu.

Mörk FH: Bjarki Sigurðsson 6/1, Ólafur Gústafsson 6, Ólafur Guðmundsson 4, Örn Ingi Bjarkason 3, Ari Magnús Þorgeirsson 2, Hermann Björnsson 1, Benedikt Kristinsson 1, Guðmundur Petersen 1, Jón Heiðar Gunnarsson 1.
Varin skot: Pálmar Pétursson 17/3 (þaraf 4 til mótherja)
Utan vallar: 6 mínútur.
Mörk Fram: Halldór Jóhann Sigfússon 10/4, Magnús Stefánsson 6, Andri Berg Haraldsson 2, Arnar Birkir Hálfdánsson 2, Jóhann Karl Reynisson 2, Stefán Baldvin Stefánsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 18/1 (þaraf 9 til mótherja).
Utan vallar: 16 mínútur, þar af fengu a.m.k. tveir rautt spjald á síðustu sekúndu fyrir mótmæli.
Áhorfendur: 800.

50. FH-ingar ná sér ekki á strik. Sóknarleikurinn er hreinlega í kalda koli. Framarar eru baráttulgaðir og greinilega staðráðnir í að vinna. Fram er með fjögurra marka forskot, 22:18, og fátt sem bendir til að FH-liðið snúi leiknum sér í hag. Ólafur Guðmundsson hefur ekkert komið við sögu í síðari hálfleik í liði FH eftir að hafa meiðst seint í fyrri hálfleiks.

40. Leikurinn er í járnum. Vörn FH hefur batnað frá því í fyrri hálfleik  en sóknarleikurinn heldur áfram að bila. Leikgleði og barátta í Fram-liðinu. Sóknarleikurinn léttur og markvarsla Magnúsar heldur áfram að vera góð. Staðan, 18:17, Fram í vil

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleik og er staðan jöfn, 14:14. FH-liðið skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins. Allt stefni í ójafnan leik eftir fyrstu tíu mínúturnar og að Fram-liðið yrði FH-ingum auðveld bráð. Annað kom á daginn. Fram hefur leikið fína vörn og síðan hefur Magnús Erlendsson varði vel í markinu síðustu mínútur, alls 9 skot. Vörn FH hefur versnað og sóknarleikurinn verið skipulagslítill.
Fimm mínútum fyrir hálfleik meiddist Ólafur Guðmundsson. Hann fékk högg í andlitið og eftir stutta aðhlynningu við hliðarlínuna fór hann inn í búningsklefa. Ekki er vitað hvort hann tekur frekar þátt í leiknum.

Nafnarnir Ólafur Guðmundsson og Gústafsson hafa skorað 4 mörk hvor fyrir FH. Halldór Jóhann Sigfússon er markahæstur hjá Fram með 6 mörk. Magnús Stefánsson er næstur með þrjú mörk.

18. Leikur FH-liðsins hefur algjörlega hrunið síðustu mínútur eftir að það komst í 9:3 og allt stefndi í burst. Framarar hafa girt sig í brók, vörnin sterk, runninn er hamur á Magnús Erlendsson í markinu auk þess sem sóknarleikurinn er ágætur. Einar Andri, þjálfari FH, hefur tekið leikhlé og les mönnum sínum pistilinn. Staðan, 10:9, FH í vil.

10. FH-ingar byrja leikinn af miklum krafti, jafnt í vörn sem sókn. Ólafur Guðmundsson fer mikinn í sókninni. Framarar virðast miður sín. Staðan, 8:3, FH í vil.

2. Ólafur Guðmundsson og Ari Þorgeirsson opna markareikning FH, hvor með sínu markinu.

Bjarni Fritazson er meiddur og leikur ekki með FH í kvöld. Hann mun finna fyrir eymslum í hásinum. Jafnvel er talið að hann verði frá keppni í nokkrar vikur af þessum sökum. Það hefur þó ekki verið staðfest.

Dómarar leiksins eru Hafsteinn Ingibergsson og Gísli H. Jóhannesson.

Gríðarleg öryggisgæsla er á leiknum og var áhorfendum ekki hleypt inn í salinn fyrr en stundarfjórðungi fyrir leik.

Stjórn handknattleiksdeildar Fram sagði á föstudaginn Viggó Sigurðssyni upp störfum sem þjálfari liðsins í kjölfar slaks árangurs í fyrstu leikjum mótsins. Aðstoðarmaður Viggós, Einar Jónsson, stýrir Fram-liðinu í kvöld. Einar til aðstoðar í kvöld verður alnafni hans, Einar Jónsson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fram. 

mbl.is

Íþróttir, Handbolti — Fleiri fréttir

Í gær

Fimmtudaginn 25. júlí

Miðvikudaginn 24. júlí

Þriðjudaginn 23. júlí

Mánudaginn 22. júlí

Sunnudaginn 21. júlí

Föstudaginn 19. júlí

Fimmtudaginn 18. júlí

Miðvikudaginn 17. júlí

Þriðjudaginn 16. júlí

Mánudaginn 15. júlí

Sunnudaginn 14. júlí

Laugardaginn 13. júlí

Föstudaginn 12. júlí

Fimmtudaginn 11. júlí

Miðvikudaginn 10. júlí

Þriðjudaginn 9. júlí

Sunnudaginn 7. júlí

Laugardaginn 6. júlí

Föstudaginn 5. júlí

Fimmtudaginn 4. júlí