Grunaður um morð í Herning

Lögregla í Danmörku hefur handtekið 48 ára gamlan karlmann, sem er grunaður um að hafa myrt tvítuga stúlku á nýársnótt. Maðurinn býr í fjölbýlishúsi þar sem lík stúlkunnar fannst í gær í kjallaraherbergi. 

Lögreglan hefur verið fámál um málið en upplýsir þó að framburður vitna og tæknirannsóknir hafi leitt til þess að maðurinn var handtekinn. Hann verður yfirheyrður í kvöld.

Stúlkan, sem hét Maria Møller Christensen, var að skemmta sér með félögum sínum á stúdentagarði í Herning. Hún hvarf þaðan um miðnætti á nýársnótt og fór út í kuldann skólaus og illa klædd. Síðast sást til hennar á gangi um klukkan 1.

Lögregla sagði í dag, að talið væri að stúlkan hafi verið mjög ölvuð og hún hafi væntanlega villst á leiðinni heim. Fram kom í dag, að stúlkunni hafði verið misþyrmt kynferðislega og hún síðan kyrkt.

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Miðvikudaginn 8. janúar

Þriðjudaginn 7. janúar