Krýsuvíkurkirkja brann í nótt

Krýsuvíkurkirkja.
Krýsuvíkurkirkja. mbl.is/ÞÖK

Krýsu­vík­ur­kirkja brann til kaldra kola í nótt. Slökkvilið Grinda­vík­ur var kallað út laust eft­ir klukk­an tvö í nótt, Þegar komið var á vett­vang var kirkj­an fall­in. Slökkviliðið slökkti í því sem hægt var að slökkva. Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins sendi tankbíl full­an af vatni á staðinn. 

Ásmund­ur Jóns­son, slökkviliðsstjóri í Grinda­vík, sagði að út­kallið hafi komið frá Neyðarlín­unni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið send­ur á vett­vang. Leiðin úr Grinda­vík í Krýsu­vík er ekki auðfar­in á þess­um árs­tíma og var slökkviliðið um hálf­tíma að Krýsu­vík­ur­kirkju. 

Þegar slökkviliðsmenn­irn­ir komu á vett­vang var kirkj­an fall­in og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Feng­inn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins í Hafnar­f­irði. 

Ekk­ert raf­magn er á staðnum og ekki er vitað um elds­upp­tök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mann­leg mis­tök. Lög­regl­an mun rann­saka elds­upp­tök­in í dag.

„Þetta er skelfi­legt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þór­hall­ur Heim­is­son, sókn­ar­prest­ur í Hafn­ar­fjarðar­kirkju. Krýsu­vík­ur­kirkja er í Hafn­ar­fjarðarprestakalli. „Það var dýr­grip­ur sem var þarna í Krýsu­vík, ein­stök kirkja og gríðarlega mikið heim­sótt.“

Í kirkj­unni var gesta­bók og þúsund­ir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkj­unni var hún alltaf set­in til þrengsla og fjöldi fólks ut­an­dyra, að sögn Þór­halls. Hann sagði marga hafa borið vin­ar­hug til gömlu kirkj­unn­ar í Krýsu­vík. Miss­ir henn­ar sé því mikið áfall. 

Þór­hall­ur sagði að alt­ar­is­tafla Sveins Björns­son­ar, sem hann málaði sér­stak­lega fyr­ir kirkj­una, hafi bjarg­ast.  Venj­an var að messa í Krýsu­vík­ur­kirkju í lok sept­em­ber ár hvert. Eft­ir þá messu var alt­ar­is­tafl­an tek­in niður og geymd ásamt öðrum laus­um kirkju­grip­um í Hafn­ar­fjarðar­kirkju yfir vet­ur­inn.

Krýsu­vík­ur­kirkja var byggð árið 1857, fyr­ir 153 árum, og end­ur­byggð og end­ur­vígð árið 1964. Kirkj­an var í vörslu þjóðminja­varðar. 

Altaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist …
Alt­ar­is­tafla Sveins Björns­son­ar list­mál­ara prýddi kirkj­una að sum­ar­lagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafn­ar­fjarðar­kirkju yfir vet­ur­inn. mbl.is/​RAX
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Fimmtudaginn 27. mars