Þjóðardagur Íslands var haldinn hátíðlegur á Heimssýningunni í Shangahai í Kína í dag og var athygli almennings, sýningarhaldara og kínverskra fjölmiðla því sérstaklega á íslenska skálanum.
Hreinn Pálsson, framkvæmdastjóri íslenska skálans, segir að Íslendingar á svæðinu séu mjög ánægðir með daginn.
Dagurinn hófst með formlegri athöfn, þar sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hélt ræðu. Latibær var með tvær sýningar en verkefnið var sérstaklega kynnt í gær. Þá var líka opnuð sýning á ljósmyndum Ragnars Axelssonar, RAX, af ís úr Jökulsárlóni, en myndir úr þeirri myndröð þekja ytra byrði íslenska skálans. Jafnframt var opnuð sýning á verkum Steinunnar Sigurðardóttur fatahönnuðar og mynd- og hljóðverkasýning Guðrúnar Kristjánsdóttur auk þess sem Hönnunarmiðstöðin er með stóra sýningu. Fulltrúar íslenskra fyrirtækja kynntu starfsemi sína á sérstakri Íslandsstofu og forsetinn ávarpaði hópinn.
Rigning var í Shanghai í dag og því voru fyrirhugaðir útitónleikar fluttir inn í skálann. Fram komu Ólafur Arnalds og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari, en þau eru að fara í tónleikaferð um Kína.
Dagskrá dagsins lauk með mótttöku fyrir forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í sýningunni.
Hreinn segir að Ísland hafi fengið mjög mikla umfjöllun í fjölmiðlum í tengslum við sýninguna. Um 200 fréttir um Ísland hafi verið í kínverskum fjölmiðlum og hann hafi til dæmis verið í um 40 sjónvarpsviðtölum í helstu fréttatímum.
Daglega hafa um 12.000 gestir heimsótt íslenska skálann eða um 1,5 milljónir gesta og er gert ráð fyrir að þeir verði um tvær milljónir áður en yfir lýkur í lok október. Hreinn áréttar að mikilvægast sé að skapa jákvæða ímynd af Íslandi og koma sýnendum í viðskiptasambönd í Kína.