Kópavogsbær raskar samkeppni

Ýmsir kostir eru við að reka líkamsrækt og sundlaug í …
Ýmsir kostir eru við að reka líkamsrækt og sundlaug í sama húsi. mbl.is/Ómar

Samningur Kópavogsbæjar við Medic, sem rekur Nautilus-líkamsræktarstöðvar, um rekstur líkamsræktarstöðva í Salalaug og Sundlaug Kópavogs, raskar samkeppni milli líkamsræktarstöðva á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt frummati Samkeppnisstofnunar. Kærandi í málinu er Þrek sem rekur World Class.

Ein af frumniðurstöðum Samkeppnisstofnunar er að viðskiptavinir Nautilus-stöðvanna í Salalaug og Sundlaug Kópavogs njóti í ríkari mæli en aðrir sundgestir niðurgreiðslu á rekstri sundlauga Kópavogs. Bendir eftirlitið á að gestakomur viðskiptavina Nautilus árið 2006 voru 36% af almennum gestakomum í Íþróttamiðstöð Versala, þar sem Salalaug er til húsa, en aðgangseyrir þeirra var á sama tíma aðeins 31% af samanlögðum almennum aðgangseyri. Sama gildi um Sundlaug Kópavogs.

 Samkeppniseftirlitið bendir á að rekstur umræddra íþróttamannvirkja standi ekki undir raunkostnaði og er niðurstaða eftirlitsins sú að viðskipti bæjarins við Nautilus standi ekki heldur undir raunkostnaði. Þá telur stofnunin að gjaldskrá Kópavogsbæjar á árskortum í sund fyrir viðskiptavini Nautilus feli í sér afslátt til viðskiptavina Nautilus sem ekki verði skýrður með kostnaðarhagræði eða byggi á öðrum rekstrarlegum forsendum. Fram kemur að Nautilus-stöðvarnar keyptu árskort í sund fyrir sína viðskiptavini á 7.000 krónur með magnafslætti en fullt verð var 17.500 krónur. 

Samningur um rekstur Nautilus-stöðvar í Kópavogslaug var gerður árið 1997 en samningurinn um rekstur í Salalaug var gerður árið 2004.  Þrek, þ.e. World Class, sendi erindi til Samkeppnisstofnunar haustið 2004 og fór fram á að staðfest yrði að leigusamingur um rekstur í Salalaug bryti í bága við samkeppnislög. Var þess krafist að Kópavogsbæ yrði bannað að leigja Nautilusi aðstöðu undri rekstur Nautilus í Salalaug eða skilyrði sett fyrir samningnum, s.s. að Nautilus greiddi fullt verð fyrir alla aðstöðu og þjónustu sem fyrirtækið fær frá Kópavogsbæ.

Samkeppniseftirlitið taldi ekki ástæðu til að aðhafast en áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi hana úr gildi árið 2005. Þar með var Samkeppniseftirlitinu gert að rannsaka og taka á ný ákvörðun vegna hins upphaflega erindis Þreks. Vinnsla þessa máls hefur tafist hjá stofnuninni, en í frummatinu er tekið fram að hún hafi heimild til að forgangsraða málum sem hún hefur til meðferðar hverju sinni.

Samkeppniseftirlitið tekur fram að frummatið kunni að breytast ef athugasemdir frá Kópavogsbæ gefi tilefni til. 

Þrjár af níu líkamsræktarstöðvum World Class eru reknar í tengslum við sundlaugar, í Laugardal, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Allar fimm stöðvar Nautilus eru reknar í sundlaugarmannvirkjum.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær