Auður ráðin framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga

Auður Finnbogadóttir.
Auður Finnbogadóttir.

Auður Finnbogadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga  og hefur hún störf þann 1. desember.

Auður er viðskiptafræðingur frá University of Colorado at Boulder í Bandaríkjunum og með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er löggiltur verðbréfamiðlari og stóðst hæfispróf sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs undir lok síðasta árs.

Auður hefur um 15 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði, þ.á.m. reynslu af eignastýringu.  Hún var framkvæmdastjóri MP Banka hf. frá stofnun til ársins 2003.  Á árunum  2003-2009 starfaði hún sjálfstætt við ráðgjöf tengda fjármálum og eignastýringu og rak eigið fjármálafyrirtæki, A Verðbréf hf., á árunum 2006-2008.   Auður var í stjórn Landsnets hf.  frá  2003-2009, í stjórn Nýja Kaupþings banka hf.  frá nóvember 2008-ágúst 2009, í stjórn RÚV ohf.  frá janúar 2008-janúar 2009, og var stjórnarformaður Norðlenska matborðsins ehf. frá mars 2008-apríl 2010.  Auður tók við tímabundnu starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar haustið 2009. Hún situr í stjórn Framtakssjóðs Íslands fyrir hönd lífeyrissjóða og er í stjórn Icelandair Group.

Lífeyrissjóður verkfræðinga var stofnaður í ársbyrjun 1955. Upphaflega var sjóðurinn eingöngu fyrir verkfræðinga en árið 1994 var opnað fyrir aðild annarra sérfræðinga.  Í dag geta þeir orðið sjóðfélagar er lokið hafa 180 eininga BSc háskólaprófi í verkfræði og raungreinum eða hafa lokið meistara- eða doktorsgráðu í háskóla.  

Alls greiddu 2885 sjóðfélagar iðgjöld í sjóðinn á árinu og 3824 áttu réttindi í sjóðnum í árslok.  Hrein eign samtryggingar- og séreignardeildar var rúmlega 31 milljarður króna í árslok 2009 og hjá sjóðnum eru 6 starfsmenn auk framkvæmdastjóra.


mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 23. desember