Jónas Garðarsson, talsmaður Sjómannafélags Íslands, segir að laun háseta á skipum norska skipafélagsins Wilson Euro Carriers, sem sér um flutninga fyrir Rio Tinto Alcan, séu mun lægri en laun íslenskra háseta á flutningaskipum.
Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna sendu í dag frá sér áskorun til Rio Tinto Alcan í Straumsvík semji við íslenskt skipafélag um álflutninga á sjó fyrir Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Fullyrt var í áskoruninni, að skip Wilson Euro Carriers sigli undir hentifána með rússneskar áhafnir á smánarlaunum. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, sagði við mbl.is í morgun, að þetta væri rangt og samkvæmt hans upplýsingum séu sjómennirnir á mjög sambærilegum kjörum og íslenskar áhafnir. Laun áhafna komi því ekki í veg fyrir að íslensk félög eða önnur félög geti verið samkeppnisfær með því að hafa íslenskar áhafnir.
Jónas sagði við mbl.is, að hann hefði fengið í hendur launaseðla áhafnar skips Wilson Euro Carriers og samkvæmt þeim væru grunnlaun háseta 784 dalir á mánuði, eða sem svarar til rúmra 92 þúsund króna. Með öllu væri launakostnaður skipafélagsins vegna hvers háseta jafnvirði 192.657 króna á mánuði.
Meðallaun íslensks háseta á flutningaskipum væru hins vegar 495.483 krónur á mánuði og að viðbættu framlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóð rúmar 535 þúsund krónur.
Jónas sagði að launamunurinn væri minni hjá skipsstjórum en dæmi væru um enn meiri launamun. Sagðist hann vilja bjóða fulltrúum Rio Tinto Alcan í heimsókn á skrifstofur Sjómannafélags Íslands til að skoða launaseðlana og kynna sér málið betur.
Vilja að Alcan skipti við íslenskt skipafélag