Annie Mist Þórisdóttir keppir í dag til úrslita á heimsleikunum í crossfit, sem fram fara í Los Angeles. Hinir íslensku keppendurnir, sem tóku þátt í leikunum, eru úr leik.
Fimmtán Íslendingar taka þátt í leikunum. Í gær lauk öðrum keppnisdegi en að honum loknum var niðurskurður og misstu allir íslensku þátttakendurnir rétt sinn til að halda áfram nema Annie Mist.
Helga Torfadóttir frá Crossfit Reykjavík missti rétt sinn á stigum eftir að hafa ekki náð að klára fyrstu keppnisgreinina á föstudaginn en tók þó þátt í öllum greinum fram á laugardagskvöld þrátt fyrir að hafa ekki verið að keppa til stiga.
Elvar Þór Karlsson frá Crossfit BC endaði í 42. sæti í karlaflokki af 50 keppendum sem kepptu á mótinu. Lið Crossfit BC endaði í 37. sæti og aðeins tveimur stigum á eftir þeim endaði lið Crossfit Sport úr Kópavogi í 38. sæti. Lið Crossfit BC varð efst þeirra evrópsku liða sem kepptu á mótinu.
Annie Mist Þórisdóttir er í toppbaráttunni og aðeins 9 stigum á eftir heimsmeistaranum frá því í fyrra, Kristan Clever, sem heldur efsta sætinu þegar fjórar greinar eru eftir.
Keppnin fer fram í dag, sunnudag, milli klukkan 15 og 23 á íslenskum tíma og hægt er að fylgjast með beinu streymi af keppninni á heimasíðu leikanna en einnig er að finna samantekt frá hverjum keppnisdegi hér á Mbl. Sjónvarpi.
Heimasíða heimsleikanna í crossfit
Þáttur um keppina í gær á Mbl. sjónvarpi