Ísland stendur vel að vígi í nýrri TIMSS-könnun

Íslenskir framhaldsskólanemendur eru yfir alþjóðlegu meðaltali í náttúrufræði og stærðfræði samkvæmt alþjóðlegri könnun, TIMSS, sem birt var í dag. 21 þjóð tók þátt í könnuninni.

Þetta er þriðji hluti TIMSS könnunar sem gerð var árið 1995 og miðast við nemendur í 12. bekk, eða á síðasta ári mismunandi námsbrauta í framhaldsskólum, sem svarar til 17-21 árs aldurs. Þegar hafa verið birtar niðurstöður prófa sem nemendur í 7. og 8. bekk og 3. og 4. bekk tóku, en íslenskir nemendur komu þar ekki vel út. Asíulönd tóku ekki þátt í þessum hluta TIMSS-könnunarinnar en þau komu einna best út þegar frammistaða grunnskólabarna var könnuð.Fyrir íslenska þátttakendur í framhaldsskólhluta TIMSS voru lögð kunnáttupróf í stærðfræði og náttúrufræði. Jafnframt svöruðu nemendur spurningum um bakgrunn sinn og viöðhorf. Skólameistarar svöruðu spurningalistum um ýmis atriði sem lutu að starfsumhverfi skólanna. Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, (RUM), ríkir meiri óvissa um niðurstöður úr framhaldsskólahluta TIMSS en í tveimur úrtökum grunnskólans vegna þess að almennt brottfall úr framhaldsskólum er mismunandi eftir löndum, og einnig var brottfall í því úrtaki framhaldsskólanema í meirihluta þátttökulandanna, sem þýðir að nemendur sem boðaðir voru í prófið mættu ekki. Almennt gildir að sá hluti hvers árgangs sem lýkur ekki einhverju prófi úr framhaldsskóla og hættir námi af einhverjum ástæðum, stendur verr að vígi námslega en sá hluti sem lýkur einhverju námi. Almennt brottfall gerir því heildarframmistöðu þjóðar betri en hún væri ella. Aðeins átta lönd af 21 sem tóku þátt í framhaldsskólakönnuninni, uppfylltu þá aðferðafræðilegu kröfu að 80% nema í úrtaki tækju þátt í rannsókninni, og var Ísland ekki þar á meðal. Brottfall í úrtaki framhaldsskólanema var 27% hér á landi og telur RUM að því sé hugsanlegt að frammistaða hópsins í heild sé betri en ella. En þegar ekki er tekið tillit til aðferðafræðilegra annmarka á úrtaki og háu almennu brottfalli, var Ísland á meðal þeirra þjóða sem náði bestum árangri þegar frammistaða í stærðfræði og náttúrufræði er tekin saman. Þegar 25% þeirra nemenda sem standa sig best í öllum löndum eru borin saman, lendir Ísland í 10. sæti, en þegar ekki er tekið tillit til þessara þátta er Ísland í 3. sæti. Þegar eingöngu er litið á frammistöðu nemenda í stærðfræði og náttúrufræði á verknámsbrautum þátttökulandanna eru íslenskir nemendur í 2. sæti, en þegar eingöngu er litið á frammistöðu nemenda í þessum greinum á bóknámsbrautum eru íslenskir nemendur í 9. sæti. Reutersfréttastofan hefur í dag eftir stjórnanda TIMSS að talsverður munur hafi verið á frammistöðu kynjanna í prófunum, karlkyninu í hag. Einnig hafi komið í ljós, að menntun foreldra tengdist beint getu nemenda í stærðfræði og raunvísindum.Þá var Ísland tekið sem dæmi um að ekki væri nauðsynlegt að byrja námið snemma, því hér á landi hefst menntaskólanám síðar og því lýkur síðar en í öðrum löndum sem tóku þátt í könnuninni. Í flestum löndunum sögðust nemendur að jafnaði verja 2-3 tímum daglega í heimanám. Þó sögðust 25% af lokaársnemendum í Austurríki, Tékklandi, Hollandi, Noregi, Svíþjóð, Sviss og Bandaríkjunum verja minna en klukkustund og dag í heimanám. Íslenskir framhaldsskólanemendur verka frístundum sínum með svipuðum hætti og framhaldsskólanemendur annarstaðar. Þeir verja að meðaltali 1,6 klukkustund á dag fyrir framan sjónvarp, leika tölvuleiki í 0,2 stundir, eyða 2,4 tímum með vinum sínum, lesa bækur í 0,6 klukkustundir, stunda íþróttir í 1,1 klukkustund og vinna heimilisstörf í 0,9 stundir. Í nánast öllum þátttökulöndunum á við, að eftir því sem nemendur horfa meira á sjónvarp, þeim mun lakari er námsárangur þeirra í stærðfræði og náttúrufræði. Nemendur sem verja minna en einni klukkustund á dag í að horfa á sjónvarp ná bestum námsárangri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert