Skiptar skoðanir stjórnarþingmanna um Kvótaþing

Umræða um sjómannafrumvörpin fjögur stendur nú yfir á Alþingi. Skiptar skoðanir eru um þau innan stjórnarmeirihlutans og klofnaði stjórnarmeirihlutinn í sjávarútvegsnefnd Alþingis í afstöðu til frumvarpsins um Kvótaþing. Minnihluti nefndarinnar klofnaði einnig í afstöðu til frumvarpsins.

Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson þingmenn Sjálfstæðisflokks og Valgerður Sverrisdóttir og Hjálmar Árnason þingmenn Framsóknarflokks standa saman að nefndaráliti um kvótaþingsfrumvarpið og breytingartillögum við það. Þar kemur fram að viðmælendur nefndarinnar hafi látið í ljósi þungar áhyggjur yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem ákvæði frumvarpsins valdi með takmörkunum á möguleika útgerða til að flytja aflaverðmæti milli skipa og hagræða þannig veiðiheimildum sínum. Hjálmar Árnason telur að veita ætti frekari undanþágur frá skyldu til að byggja færslu aflamarks milli skipa á viðskiptum á Kvótaþingi og gerir fyrirvara um þetta atriði. Þingmennirnir leggja til þrennskonar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til að viðurlagaákvæði frumvarpsins verði breytt, að sjávarútvegsráðherra skili skýrslu til Alþingis fyrir lok næsta árs um áhrif breytinganna sem frumvarpið hefur í för með sér, og loks að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem tryggi aðilum heimild til að flytja aflamark milli skipa innan sömu útgerðar án þess að fara í gegnum Kvótaþing, ef um kaupleigu eða leigu er að ræða þrátt fyrir að ekki sé um að ræða sama eignaraðilann. Sá fyrirvari er gerður að leigusamningur hafi verið gerður fyrir gildistöku laganna. Einar Oddur Kristjánsson og Vilhjálmur Egilsson þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem einnig sitja í sjávarútvegsnefnd standa hvorki að nefndarálitinu né breytingartillögunum. Þingmenn Þingflokks jafnaðarmann, Svanfríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson, skila sérstöku áliti um kvótaþingsfrumvarpið og lýsa því yfir að þau muni sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Alþýðubandalags skilar þriðja nefndarálitinu og segist ekki geta stutt frumvarpið að svo komnu máli vegna óvissunnar sem ríki um áhrif þess á þróun sjávarútvegs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert