Verkfall í langan tíma eða lagasetning nú

Þingmenn höfðu skiptar skoðanir á stjórnarfrumvörpunum fjórum sem bundu enda á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna í gærkvöldi. Arna Schramfylgdist með annarri umræðu um frumvörpin á Alþingi.
ENGINN meirihluti skapaðist í sjávarútvegsnefnd um frumvarpið til laga um kvótaþing, en þar voru lögð fram nefndarálit frá fyrsta minnihluta, öðrum minnihluta og þriðja minnihluta, auk þess sem tveir aðrir þingmenn í nefndinni skýrðu frá enn annarri afstöðu. Einnig komu fram skiptar skoðanir um hin frumvörpin, sem öll voru þó samþykkt í gærkvöldi.
 Árni R. Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður sjávarútvegsnefndar, mælti fyrir nefndaráliti frá meirihluta sjávarútvegsnefndar um frumvarp til laga um kjaramál fiskimanna, en því frumvarpi er ætlað að lögfesta efnisákvæði miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá 16. mars sl. Undir álitið skrifuðu auk Árna, Vilhjálmur Egilsson og Einar Oddur Kristjánsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks, og Hjálmar Árnason og Valgerður Sverrisdóttir, þingmenn Framsóknarflokks.
 Í máli Árna kom fram að meirihluti sjávarútvegsnefndar legði m.a. til að reglan um að fækkun í áhöfn leiði ekki til að sérstaks kostnaðarauka útgerðar nái eingöngu til áhafna skipa sem stunda rækjuveiðar og landa daglega eða ísa afla um borð. Að sögn Árna er sú breyting í samræmi við tilmæli sjávarútvegsráðherra til nefndarinnar.
 Árni fullyrti ennfremur er hann mælti fyrir nefndarálitinu, að yrði ekkert að gert myndi yfirstandandi verkfall sjómanna geta staðið yfir í langan tíma, en það hefði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög sem og þjóðarbúið í heild. "Meirihluti nefndarinnar telur að við svo búið megi ekki standa og þótt lagasetning til lausnar vinnudeilum sé almennt óheppileg og mjög gegn sannfæringu margra háttsettra þingmanna kann hún engu að síður að vera nauðsynleg vegna þeirra miklu almannahagsmuna sem í húfi eru," sagði hann.
 Lúðvík Bergvinsson, þingmaður þingflokks jafnaðarmanna, mælti fyrir nefndaráliti minnihluta sjávarútvegsnefndar um frumvarpið um kjaramál fiskimanna, en ásamt honum standa að álitinu Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður þingflokks jafnaðarmanna, og Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra. Guðný Guðbjörnsdóttir, þingmaður Kvennalista, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er auk þess samþykk álitinu, að sögn Lúðvíks.
 Í máli Lúðvíks kom fram að minnihluti sjávarútvegsnefndar mótmælti því harðlega að enn einu sinni væru sett lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. "Þetta er gert þrátt fyrir að báðir aðilar hafi mótmælt því að löggjafinn grípi inn í deiluna og þess í stað viljað reyna til þrautar að ná að semja um og leysa deilur sínar sjálfir," sagði hann. Lúðvík skýrði einnig frá því að fram hefði komið í umfjöllun félagsmálanefndar Alþingis um frumvarpið að svo mikið hefði legið á því að setja lög á verkfall sjómanna að ekki hefði gefist tóm til þess að kanna hvort lagasetning af þessu tagi fengi samrýmst ýmsum alþjóðasáttmálum og samþykktum sem Ísland væri aðili að, eins og samþykktum ILO. Hann sagði að síðustu að minnihlutinn myndi greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Minnihlutinn átelur ríkisstjórnina

 Árni R. Árnason mælti einnig fyrir nefndaráliti frá meirihluta sjávarútvegsnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í máli Árna kom m.a. fram að meirihlutinn legði m.a. til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem tryggi aðilum heimild til að flytja aflamark milli skipa innan sömu útgerðar ef um kaupleigu eða leigu sé að ræða þrátt fyrir sérstök eignarréttarákvæði þeirrar tegundar samninga án þess að þurfa að fara í gegnum kvótaþingið. Sams konar breyting er lögð til í frumvarpi til laga um kvótaþing. Í máli Árna kom hins vegar fram að sá fyrirvari væri á þessu að leigusamningur hefði verið gerður fyrir gildistöku laganna. Þá sagði hann að meirihlutinn hefði talið að ákvæði frumvarpsins væru full þröng gagnvart fjármögnunarformi eins og kaupleigu og að ekki væri ástæða til að mismuna aðilum á grundvelli þess hvaða fjármögnunarleiðir þeir hafi kosið í rekstri sínum. Á hinn bóginn myndu leigu- og kaupleigusamningar gerðir eftir gildistöku laganna ekki falla undir þetta ákvæði.
 Vilhjálmur Egilsson og Einar Oddur Kristjánsson skrifuðu undir nefndarálit meirihlutans með fyrirvara en þeir töldu eðlilegt að ákvæði um leigu og kaupleigu gilti einnig um samninga sem gerðir væru eftir gildistöku laganna.
 Svanfríður Jónasdóttir mælti fyrir nefndaráliti minnihluta sjávarútvegsnefndar um umrætt frumvarp. Sagði hún m.a. að minnihlutinn áteldi harðlega að ríkisstjórnin skyldi, í krafti meirihluta síns á Alþingi, lögbinda kjör sjómanna næstu tvö árin. Þá sagði hún að breytingartillaga meirihlutans sem gerði ráð fyrir minni veiðiskyldu og þar með minna atvinnuöryggi sjómanna en frumvarpið gerði ráð fyrir, væri veruleg efnisbreyting frá þeirri tillögu sem sjómenn hefðu tekið afstöðu til þegar þeir greiddu atkvæði um miðlunartillögu sáttasemjara. "Með því að hverfa frá veiðiskyldu yfir í framsalstakmarkanir er verið að leggja minni áherslu á veiði aflaheimildanna en meiri á ráðstöfun þeirra, óháð hagsmunum áhafnar. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða. Það er því ljóst að með samþykkt þessara breytinga er sjávarútvegsráðherra að ganga á bak orða sinna gagnvart sjómönnum." Sagði hún að þarna væri um meira en tæknilegar breytingar að ræða og með vísan til þess myndi minnihluti sjávarútvegsnefndar sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.

Alþingi gefin skýrsla

 Næst mælti Árni R. Árnason fyrir nefndaráliti frá meirihluta sjávarútvegsnefndar um frumvarp til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Sagði hann frá því að meirihlutinn legði til nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. þá að við það verði bætt nýjum málslið sem heimili sjávarútvegsráðherra að semja við fagaðila um almenna öflun og úrvinnslu gagna.
 Minnihluti nefndarinnar klofnaði í afstöðu sinni til frumvarpsins og skilaði hvor hluti sínu álitinu. Svanfríður Jónasdóttir mælti fyrir nefndaráliti sínu og Lúðvíks Bergvinssonar og sagði að þau myndu sitja hjá við afgreiðslu þessa máls vegna þeirra efnisbreytinga sem fælust í breytingartillögum meirihluta sjávarútvegsnefndar. Kristinn H. Gunnarsson skilaði hins vegar séráliti og sagði það skoðun sína að frumvarpið væri til verulegra bóta, sem og framkomnar breytingartillögur við það.

Enginn meirihluti

 Ekki myndaðist meirihluti í sjávarútvegsnefnd um frumvarpið til laga um kvótaþing, eins og fyrr var vikið að. Árni R. Árnason mælti fyrir nefndaráliti fyrsta minnihluta nefndarinnar, en undir það álit skrifuðu auk hans Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Valgerður Sverrisdóttir en Hjálmar Árnason skrifaði undir með fyrirvara. Árni sagði í framsögu sinni að ástæða þess að svo mikið bæri á milli í afstöðu nefndarmanna í þessu máli væri sú að þetta þingmál væri líklegast til að hafa afdrifaríkustu áhrif á möguleika útgerðar, sérstaklega hinna smærri útgerðarfyrirtækja, til að ná fram hagræðingu í starfsemi sinni. Að sama skapi myndi frumvarpið um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða reyndar líka hafa afdrifarík áhrif.
 Árni sagði jafnframt í framsögu sinni að fyrsti minnihluti vildi taka fram að viðmælendur nefndarinnar hafi látið í ljós þungar áhyggjur yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem ákvæði frumvarpsins valdi með takmörkunum sínum á möguleika útgerða til að flytja aflamark milli skipa og hagræða þannig veiðiheimildum sínum. Hjálmar Árnason taldi að veita ætti frekari undanþágu frá skyldu til að byggja færslu aflamarks milli skipa á viðskiptum á kvótaþingi og því gerði hann fyrirvara um þetta atriði.
 Fyrsti minnihluti gerði nokkrar breytingartillögur á frumvarpinu, m.a. þá að bætt verði við það ákvæði til bráðabirgða sem tryggi aðilum heimild til að flytja aflamark milli skipa innan sömu útgerðar ef um kaupleigu eða leigu sé að ræða, þrátt fyrir að ekki sé um sama eignaraðilann að ræða, án þess að þurfa að fara í gegnum kvótaþingið.
 Svanfríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson stóðu að nefndaráliti frá öðrum minnihluta nefndarinnar og sagði Svanfríður m.a. þau myndu sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þeirra efnisbreytinga sem fælust í breytingartillögu fyrsta minnihluta nefndarinnar.
 Kristinn H. Gunnarsson skipaði einn þriðja minnihluta nefndarinnar og kvaðst ekki myndu styðja frumvarpið að svo komnu máli. Nefndi hann ýmsa kosti við frumvarpið svo sem þá að það gerði viðskipti með aflamark sýnilegri. Hins vegar væri því ekki að leyna að frumvarpið myndi hafa talsverðar breytingar á starfsumhverfi í sjávarútvegi og eftir yfirferð sjávarútvegsnefndar á málinu stæði upp úr að mikil óvissa ríkti um mat á þróun þess. Sagði hann m.a. að það þyrfti lengri tíma til þess að meta áhrifin af lögfestingu kvótaþingsins.

Áhyggjur af einyrkjum í útgerð

 Hvorki Einar Oddur Kristjánsson né Vilhjálmur Egilsson skrifuðu undir nefndarálit um frumvarp til laga um kvótaþing. Einar Oddur kvaðst hafa miklar efasemdir um frumvarpið um kvótaþingið og reyndar einnig um frumvarpið um Verðlagsstofu skiptaverðs, en hann skrifaði ekki undir álit meirihlutanefndarinnar á því máli. "Ég efast stórlega um það að þessi breytta skipan muni bæta kjör sjómanna," sagði hann. "Ég hef miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta kann að hafa, sérstaklega á einyrkjana í íslenskri útgerð. Þeirra hagur mun skerðast meðan stórútgerðirnar geta látið þessa lagasetningu nokkurn veginn fram hjá sér fara," sagði hann meðal annars.
 Í máli Vilhjálms kom fram að hann hefði gert veigamiklar athugasemdir við frumvarpið um kvótaþing í sjávarútvegsnefnd, en að félagar hans í meirihlutanum hefðu ekki viljað taka þær til greina. Sagði hann að staðreyndin væri sú að kastað hefði verið til höndunum við vinnslu frumvarpsins, ýmis ákvæði í frumvarpinu væru meingölluð eða algjörlega óþörf.
 Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra og formaður sjávavarútvegsnefndar, tók einnig til máls í umræðunum og sagði að hann styddi álit Kristins H. um frumvarpið um kvótaþingið og að Alþýðubandalagsmenn myndu sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það frumvarp.
 Fleiri þingmenn tóku til máls við þessar umræður þó ekki sé vitnað í mál þeirra hér.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert