Minni vímuefnaneysla með leiðandi uppeldi

Uppeldishættir foreldra geta haft áhrif á það hvort unglingar neyta áfengis og vímuefna. Þannig eru unglingar sem búa við leiðandi uppeldishætti ólíklegari til að hafa neytt áfengis við 14 ára aldur og til að drekka mikið í senn við 17 ára aldur en þeir sem búa við afskiptalausa uppeldishætti. Þetta kemur fram í niðurstöðum viðamikillar rannsóknar á áfengis- og fíkniefnanotkun unglinga sem Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hefur gert. Við rannsóknina byggði Sigrún á kenningum Díönu Baumrind, sem hefur gert greinarmun á ferns konar uppeldisháttum, leiðandi, eftirlátum, skipandi og afskiptalausum. Samkvæmt skilgreiningunni krefjast leiðandi foreldrar þroskaðrar hegðunar af barninu og taka vel á móti hugmyndum þess. Þeir setja skýr mörk um hvað er tilhlýðilegt og hvað ekki, nota til þess útskýringar og hvetja börnin til að skýra út sjónarmið sín.

Börn leiðandi foreldra drekka minna og neyta síður vímuefna

 Eftirlátir foreldrar bregðast vel við hugmyndum barna sinna, leyfa töluverða sjálfstjórn og sýna þeim hlýju. Þeir setja börnum sínum hins vegar ekki skýr mörk. Skipandi foreldrar stjórna hins vegar börnum sínum með boðum og bönnum og þeir refsa þeim fyrir misgjörðir. Afskiptalausir foreldrar ala börnin upp í stjórnleysi, setja ekki mörk og gera ekki kröfur til þeirra.
 Við 14 ára aldur höfðu 42% þeirra sem áttu leiðandi foreldra prófað áfengi, 46% eftirlátra foreldra, 67% skipandi foreldra og 71% afskiptalausra foreldra. Sama var upp á teningnum þegar litið var á vímuefnaneyslu unglinganna. 45% unglinganna sem höfðu prófað hass 17 ára áttu afskiptalausa foreldra, 38% eftirláta, 18% skipandi og 12% leiðandi.
 Sigrún segir að þessi rannsókn sendi skýr skilaboð til foreldra um að leiðandi uppeldishættir séu vænlegastir til árangurs.

Unglingar afskiptalausra/11
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka