Viðskiptaráðherra segir ekki svigrúm til að stöðva útboð

Snarpar umræður urðu um útboð á hlutafé í bönkum í utandagskrárumræðum á Alþingi í dag. Stjórnarandstæðingar héldu því fram að markmið stjórnarinnar um dreifða eignaraðild hefði mistekist en viðskiptaráðherra benti á að þúsundir Íslendinga hefðu þegar fest kaup á hlutabréfum í Búnaðarbanka til eignar.

Almenningur er einkavinur ríkisstjórnarinnar
Jóhanna Sigurðardóttir rifjaði upp sex ára gömul ummæli Finns Ingólfssonar úr ræðustóli á alþingi um einkavinavæðingu þáverandi ríkisstjórnar sem hygðist „brjóta niður ríkisfyrirtæki" svo „brotin pössuðu í gin Kolkrabbans". Sagði hún Finn nú einmitt vinna að því sama úr ráðherrastóli, og kallaði útboð á hlutafé bankanna „einkavinavæðingu". Fjársterkir aðilar væru að sölsa undir sig stóra hluti í ríkisbönkum og högnuðust um milljónir á braski með kennitölur landsmanna sem á sama tíma fengju að líkindum aðeins fáein þúsund króna fyrir sinn snúð. Viðskiptaráðherra svaraði því til að ef framvinda útboðsins væri einkavinavæðing væri einkavinur ríkisstjórnarinnar enginn annar en almenningur á Íslandi því honum byðist nú að kaupa hlut í ríkisbönkum og njóta góðs af. Hann benti á að þúsundir landsmanna hefðu hugsað sér að eiga þau hlutabréf sem þeir væru nú að festa kaup á, í samræmi við stefnu stjórnarinnar um dreifða eignaraðild ríkisfyrirtækja.Hann svaraði ásökunum um að verið væri að selja eigur almennings á undirverði og sagði tvær leiðir hafa komið til greina við undirbúning útboðsins. Annars vegar að selja marga litla hluti í dreifðri sölu á lægra gengi, hins vegar að selja hlutabréf upp á stærri hluti, 5-15%, á hærra gengi. „Reynsla hlutabréfaviðskipta í fjármálastofnunum í Evrópu sýnir að munur á verði í þessum tveimur söluaðferðum getur verið allt að 30-50%," sagði Finnur og útskýrði að markmiðið um dreifða eignaraðild hefði verið tekið fram yfir markmiðið um hámarksverðmæti. Finnur réð ríkisbönkum frá kaupum á stórum hlut í FBA
Til þess að framfylgja hugmyndum um dreifða eignaraðild lagði hann ríkisbönkunum línurnar við útboð bréfa í FBA. „Þegar sala á hlutabréfum í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins stóð yfir taldi ég rétt af gefnu tilefni að rita Landsbanka og Búnaðarbanka bréf þar sem ég tjáði þeim að ég teldi óeðlilegt að þeir keyptu stóran hlut í bankanum," sagði Finnur en tók fram að engu að síður hefði bönkunum verið rétt og skylt að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna með því að taka þátt í kaupum á bréfum.Finnur sagði kennitölusöfnun vera andstæða markmiðum stjórnarinnar en ekki væri víst að slík viðskipti væru óeðlileg þegar allt kæmi til alls. Kvaðst hann vilja bíða álits Bankaeftirlitsins og sagði að útkomu yfirstandandi hlutabréfasölu í Búnaðarbanka yrði einnig að meta áður en ákveðið yrði með framhaldið. Hann benti á að hluthafafundur hefði tekið ákvörðun um útboðið í september, áskriftir hæfust í dag og þeim lyki á föstudag. „Ekkert svigrúm er því til aðgerða til þess að sporna við kennitölusöfnun í þessari sölu, jafnvel þó að menn teldu ástæðu til þess," sagði ráðherra. Sitt er hvað framkvæmd og viðbrögð
Bryndís Hlöðversdóttir, Alþýðubandalagi, sagði afstöðu ráðherra alls kostar óljósa. Hann hefði í fjölmiðlum kveðið upp áfellisdóm yfir eigin stefnu en reyndi nú í þingsölum að draga úr þeirri gagnrýni. Talsmenn þingflokks óháðra ítrekuðu kröfu sína um að „útsala" á bréfum Búnaðarbanka yrði blásin af og að hætt yrði við sölu 51% hlutar í FBA að svo stöddu. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Jafnaðarmanna, sagði stefnu stjórnarinnar í sölu bankanna hafa misteksist en Hjálmar Árnason sagði slíkar ásakanir út í hött. Almenningi væri gefinn kostur á hlutabréfum, markmiðið um dreifða eignaraðild væri virt. „Viðbrögð einstakra samkeppnisaðila eru svo allt annar handleggur," sagði Hjálmar og spurði hvort menn vildu setja skorður á ráðstöfunarrétt almennings með sín eigin hlutabréf. Jóhanna Sigurðardóttir krafðist þess að sett yrði 3-5% þak á eignaraðild í umræddum bönkum en Einar Oddur Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, lagði til að fremur yrði skorað á almenning að kaupa hlutabréf til eigin eignar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert