Framlag ríkis til kvikmyndagerðar aukið

BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra og Geir H. Haarde, fjármálaráðherra undirrita í dag, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, samkomulag við fimm helstu hagsmunafélög í kvikmyndagerð um að efla íslenska kvikmyndagerð á næstu árum. Í því felst meðal annars að framlag ríkisins til Kvikmyndasjóðs hækkar um 40 milljónir á milli ára, frá því í ár og fram á það næsta.
 Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir því að fjárframlög til Kvikmyndasjóðs Íslands aukist á næstu árum, þannig að árið 2002 verði þau allt að 200 milljónir króna, til þess að framleiða fimm íslenskar kvikmyndir í fullri lengd.
 Ríkisstjórnin skuldbindur sig með samkomulaginu til að auka fjárframlag til kvikmyndasjóðs í fjórum áföngum, um 40 milljónir fyrir næsta ár og um 30 milljónir á ári næstu þrjú ár eftir það. Með því á að vera unnt að veita allt að 40% styrk af framleiðslukostnaði hverrar myndar, til fimm leikinna íslenskra kvikmynda í fullri lengd á ári, í stað 20% núna.

Framhald stefnumörkunar

 Að auki felur samkomulagið í sér að verði Menningarsjóður útvarpsstöðva lagður niður, en um það liggur fyrir frumvarp á Alþingi, mun á næstu fjórum árum eftir það verða veitt fé úr ríkissjóði í sérstaka deild í Kvikmyndasjóði til að gera heimildarmyndir, stuttmyndir og fleiri myndir sem ekki teljast leiknar kvikmyndir í fullri lengd.
 Björn Bjarnason segir að fé til kvikmynda hafi verið aukið jafnt og þétt á þessu kjörtímabili og samkomulagið sé framhald þeirrar stefnumörkunar: "Í haust tóku menn að ræða um að æskilegt væri að ná samkomulagi um umfang íslenskrar kvikmyndagerðar í stað þess að metast um hver opinber stuðningur við hana ætti að vera. Þetta samkomulag er framhald af þeirri stefnu okkar að efla Kvikmyndasjóð og menn eru sammála um að með því geti íslensk kvikmyndagerð gegnt eðlilegu hlutverki í íslensku menningarlífi," segir Björn Bjarnason, menntamálaráðherra.
 Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs, segir að það hve lágt hlutfall framlag ríkissjóðs til kvikmyndagerðar hafi verið undanfarið hafi verið eitt helsta vandamál greinarinnar. Með samkomulaginu sé það stórlega bætt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert