Saka prófessora um aðför að landsbyggðinni

SAUTJÁN þingmenn hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir furðu sinni á því að 105 prófessorar skuli hafa undirritað yfirlýsingu í kjölfar dóms Hæstaréttar um leyfi til fiskveiða og saka prófessorana um að gera "aðför að landsbyggðinni". Yfirlýsing þingmannanna er svohljóðandi:  "Eitt hundrað og fimm prófessorar í Háskóla Íslands hafa gefið út yfirlýsingu, þar sem þeir telja að í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands vegna synjunar sjávarútvegsráðuneytisins á leyfi til fiskveiða beri Alþingi að breyta lögum um úthlutun veiðiheimilda þannig að þau samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði þegnanna gagnvart lögum og að ákvæði laga um sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum sé virt. Við undirritaðir þingmenn landsbyggðarinnar bendum á að dómur Hæstaréttar fjallaði ekki um úthlutun veiðiheimilda. Með túlkun sinni á dóminum hafa 105 prófessorar í Háskóla Íslands tekið afstöðu í hápólitískum deilum um atvinnuréttindi tengd útgerð, sem er mikilvægasta atvinnugrein landsbyggðarinnar og undirstaða búsetu þar. Prófessorarnir hafa tekið þá afstöðu að dóminn beri að túlka svo vítt að hann varði úthlutun veiðiheimilda. Þeir taka þar með undir málflutning þeirra, sem vilja afnema atvinnutengd réttindi, en þau standa undir atvinnulífi landsbyggðarinnar.
 Í þessari afstöðu felst einnig stuðningur við sérstaka gjaldtöku af sjávarútvegi og þar með við álögur á þau byggðalög sem byggja afkomu sína á nýtingu auðlinda sjávar.
 Við undirritaðir lýsum yfir furðu okkar á því að nú, þegar búsetuþróun er landsbyggðinni óhagstæðari en áður, þegar mörg byggðarlög eiga í vök að verjast og enginn landshluti býr við vöxt utan höfuðborgarsvæðisins, skuli mikill meirihluti prófessora í Háskóla Íslands standa fyrir slíkri aðförð að landsbyggðinni."
Tómas I. Olrich, Kristinn Gunnarsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni R. Árnason, Sturla Böðvarsson, Egill Jónsson, Jón Kristjánsson, Kristján Pálsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Árnason, Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Jónsson, Vilhjálmur Egilsson og Einar K. Guðfinnsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert