Geta valið milli mismunandi sóknardagakerfa og aflamarks

SAMKOMULAG náðist í gær milli fulltrúa stjórnarmeirihlutans í sjávarútvegsnefnd Alþingis og sjávarútvegs- og utanríkisráðherra um breytingartillögur við frumvarpsjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða varðandi fiskveiðistjórnun smábáta. Varð niðurstaða meirihlutans í sjávarútvegsnefnd sú í gær, að í frumvarpinu verði smábátaeigendum gefinn kostur á að velja á milli þeirrar leiðar sem fólst í tillögu sjávarútvegsnefndar, sem kynnt var sl. miðvikudag og þess kerfis sem Landssamband smábátaeigenda lagði til og telur sig hafa náð samkomulagi um við sjávarútvegsráðuneytið. Verður niðurstaðan kynnt fulltrúum minnihlutans á fundi sjávarútvegsnefndar sem hefst kl. 10 í dag.
 Í meginatriðum felst í breytingartillögunum að smábátasjómenn í sóknardagakerfinu geti valið á milli þess annars vegar að framlengja veiðikerfi sóknardagabáta í tvö fiskveiðiár til viðbótar, þar sem handfærabátar fengju að róa 40 daga á ári en línu- og handfærabátar í 32 daga. Jafnframt yrði sett 30 tonna þorskaflahámark á hvern bát. Sóknardagakerfið yrði þannig framlengt til 1. september árið 2000 en að því loknu færu þeir inn í aflahámarkskerfið. Gert er þó ráð fyrir að þeir sem það vilja geti flust strax yfir í þorskaflahámarkskerfi þar sem miðað yrði við við aflareynslu. Þetta er sú leið sem fulltrúar Landssambands smábátaeigenda (LS) hafa lagt áherslu á og segjast hafa náð samkomulagi um við sjávarútvegsráðuneytið. Hins vegar stendur smábátaeigendum svo til boða skv. samkomulaginu að velja þá leið sem samkomulag hafði náðst um í sjávarútvegsnefnd sl. miðvikudag. Sú tillaga felur með sama hætti í sér að þeir sem það vilja geti flust yfir í þorskaflahámarkskerfi en sóknardagakerfið verði framlengt í tvö ár og bátunum yrði heimilt að veiða á handfæri í 23 daga á ári, aðeins yfir sumartímann á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september. Ekkert aflahámark yrði sett á veiðarnar. Sóknardagar verði bundnir kennitölu smábátaeigenda en ekki útgerð eða bát. Þeir yrðu þannig framseljanlegir og smábátaeigendum heimilt að leigja sóknardaga eða selja þá eða kaupa varanlega. Fari afli yfir ákveðin mörk fækki hins vegar sóknardögunum.

Kom í ljós að LS átti í viðræðum við ráðuneytið

 Sjávarútvegsnefnd hefur unnið að breytingartillögum við frumvörpin frá því milli jóla og nýárs. Skv. heimildum blaðsins kom hins vegar í ljós að Landssamband smábátaeigenda hafði átt í viðræðum við sjávarútvegsráðuneytið um aðrar breytingar sem áttu að styrkja stöðu smábátaeigenda. Ákveðið var um áramót að Kristinn H. Gunnarsson, formaður sjávarútvegsnefndar, og Árni R. Árnason varaformaður létu gera samanburð á þessum tveimur leiðum, þ.e. annars vegar á samkomulagsdrögum ráðuneytisins og LS og hins vegar á hugmyndum sjávarútvegsnefndar. Voru Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, skipaðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að vinna með nefndinni.
 Síðastliðinn þriðjudag lá svo niðurstaða úr samanburðinum fyrir og var það mat manna að það hefði lítil áhrif á heildarveiði smábáta hvor leiðin yrði fyrir valinu. í framhaldi af því var svo samþykkt á fundi fulltrúa stjórnarflokkanna í sjávarútvegsnefnd og ráðherra sl. miðvikudag að velja þá leið sem sjávarútvegsnefnd hafði lagt til. Var sú leið þessu næst samþykkt á þingflokksfundum beggja stjórnarflokkanna síðdegis og jafnframt var niðurstaðan kynnt fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem breytingartillögur meirihluta sjávarútvegsnefndar við frumvarpið. Síðar um kvöldið kom hins vegar í ljós hörð andstaða fulltrúa Landssambands smábátaeigenda við þessar breytingatillögur nefndarinnar. Vakti þessi afstaða mikla undrun meðal fulltrúa í sjávarútvegsnefnd.
 Sjávarútvegsnefnd fundaði stíft allan fimmtudaginn og síðdegis var haldinn þingflokksfundur í Sjálfstæðisflokknum. Var þar greint frá bréfi sem formaður og framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda sendu sjávarútvegsnefnd sama dag, þar sem þeir lýsa mikilli andstöðu við breytingartillögur nefndarinnar, sem þeir sögðu mun lakari kost en þann sem Landssambandið hefði rætt um við sjávarútvegsráðuneytið.

Bréf LS olli straumhvörfum

 Í bréfinu segir að þær hugmyndir sem sjávarútvegsnefnd hafði kynnt gengju í aðalatriðum verulega á skjön við niðurstöður úr viðræðum Landssambandsins við sjávarútvegsráðherra. "Við fögnum því að vilji er fyrir hendi til að varðveita sóknardagakerfi smábáta. En sóknardagakerfi þar sem ekkert "gólf" er í dagafjöldanum er óviðunandi. Slíkt kerfi mun einungis hafa í för með sér áframhaldandi óvissu, en af henni hafa félagsmenn LS fengið sig fullsadda. Undirritaðir fullyrða að það muni koma félagsmönnum þeirra betur að fara inn á aflahámarkskerfi en í það sóknardagakerfi sem um getur í tillögum meirihluta sjávarútvegsnefndar. Rétt er að taka fram að það sem hér er sagt er skoðun sem rekja má til dóms Hæstaréttar um að atvinnuréttindi smábátaeigenda verði ekki varin nema með framseljanlegum veiðirétti," segir í bréfi formanns og framkvæmdastjóra LS.

Skiptar skoðanir

 Mjög skiptar skoðanir komu fram á þingflokksfundi sjálfstæðismanna vegna þessarar nýju stöðu. Vildu m.a. Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra, Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson, sem eiga sæti í sjávarútvegsnefnd o.fl. falla frá breytingartillögum nefndarinnar sem áður höfðu verið samþykktar, og koma til móts við sjónarmið Landssambands smábátaeigenda en aðrir þingmenn vildu halda sig við tillögurnar eins og búið var að afgreiða þær. Í þeim hópi voru Einar Oddur Kristjánsson og Vilhjálmur Egilsson, sem báðir eiga sæti í sjávarútvegsnefnd.
 Til stóð að afgreiða breytingartillögur úr sjávarútvegsnefnd á fimmtudagskvöldið en vegna þess ágreinings sem upp var kominn var öllum frekari fundahöldum frestað og leitað var eftir óformlegum leiðum að samkomulag í viðræðum nefndarmanna og ráðherra á fimmtudagskvöldið og í gærdag. Lögðu þar þeir Einar Oddur og Vilhjálmur Egilsson fram tillögu til samkomulags sem fól í sér að umræddar tillögur yrðu báðar settar inn í lögin sem valkostir þannig að smábátaeigendum í sóknardagakerfinu yrði gefinn kostur á því að velja á milli umræddra tveggja leiða innan ákveðinna tímamarka eftir því sem þeir teldu sér henta best. Náðist fullt samkomulag um þessa niðurstöðu innan meirihluta sjávarútvegsnefndar og af hálfu ráðherra í gærdag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert