Milljónatjón en meiðsli smávægileg

Morgunblaðið/Halldór

TVEIR menn hlutu minniháttar meiðsli þegar brot reið yfir togarann Bessa ÍS laust eftir klukkan eitt í fyrrinótt þar sem hann var staddur á Dohrn-banka á leið til hafnar. Dæld kom á síðu skipsins og nemur tjónið milljónum króna að sögn Ingimars Halldórssonar, útgerðarstjóra Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal sem gerið skipið út. Þá riðu tvö brot yfir Framnes ÍS sem Gunnvör hf. gerir út í fyrrinótt, en tjón var óverulegt og menn sakaði ekki. Um 20 manns voru um borð í Bessa ÍS þegar þetta gerðist, þar á meðal maður utan áhafnar sem var um borð til að reyna þriðju spilvindu skipsins, en hún var nýlega sett upp til að hægt sé að draga tvö troll samtímis. Ákveðið hafði verið að nýta bræluna og sigla með tvo menn í land. Á milli 9-10 vindstig voru á miðum þegar brotið reið yfir Bessa, en að sögn Barða Ingibjartssonar skipstjóra var ölduhæð ekki mikil eða aðstæður til siglingar sérstaklega erfiðar.

Menn flugu úr kojum

 "Þetta var stakt brot sem komið gæti nánast hvenær sem er. Talsvert högg kom á skipið og það mikið að menn köstuðust til og það sem ekki var ólað fast fór á fleygiferð," segir Barði. "Menn flugu út úr kojum og þeir sem voru vakandi hentust til þar sem þeir voru staddir. Einna verst fóru þeir sem sátu í sjónvarpskróknum, fengu hnykki á sig og einn fékk í sig hillu sem slitnaði upp við höggið."  Hann segir að beðið hafi verið meðan tjónið var kannað og hlúð að mönnum, en síðan hafi verið siglt í land. Skipið til hafnar á Ísafirði laust fyrir klukkan 11 í gærmorgun.  Dæld myndaðist á síðu skipsins á móts við afturgálgann við brotið. Ingimar segir að tjónið verði ekki metið fyrr en fulltrúar tryggingafélagsins komist vestur og batt hann vonir við að það tækist síðdegis í gær. Hann telji þó tjónið töluvert og að kostnaður við viðgerð gæti skipt milljónum króna. Skipið sé hins vegar tryggt og hann geri sér því von um að tjónið verði bætt að fullu.  "Fyrir utan skemmdirnar á síðunni hefur ekkert tjón komið í ljós. Við vitum þó að vatn fór inn á spilmótor. Skipið er því sjóhæft en við munum reyna að gera við til bráðabirgða til að styrkja það fyrir siglingu," segir Ingimar. Hann kveðst vona að viðgerð taki ekki nema örfáa daga.  "Ég var sofandi í koju þegar þetta gerðist, hentist til en tókst að hanga í henni," segir Óskar Gunnarsson vélstjóri. "Flestir voru þó vakandi, en alla vega sex voru í koju."

Ekki alvarlegir áverkar

 Mennirnir sem áverka fengu voru sendir til skoðunar á sjúkrahúsinu á Ísafirði, en meiðsli þeirra reyndust ekki alvarleg. Einn var rifbeinsbrotinn en annars var aðallega um skrámur, mar og tognanir að ræða.  Gísli Skarphéðinsson, skipstjóri á Framnesi, segir að brotsjóirnir sem riðu yfir skipið hafi aðeins valdið skemmdum á rekkum. Hann segir að einnig þurfi að yfirfara slöngubát sem var festur við rekkana og að auki tvo björgunarbáta sem féllu sjálfkrafa niður og blésu út þegar annar brotsjórinn reið yfir.  Eins og Bessi var Framnesið á leið af Dohrnbanka og til hafnar og segir Gísli að veður hafi verið mjög slæmt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert