Frjáls afgreiðslutími áfengis um helgina í miðborginni

BORGARRÁÐ ákvað á fundi sínum í gær að heimila í tilraunaskyni í þrjá mánuði að vínveitingastaðir geti verið opnir frá föstudagsmorgni til sunnudagskvölds án annarra takmarkana en þeirra sem staðirnir setji sjálfir. Heimildin gildir á svæði sem afmarkast af Aðalstræti og Klapparstíg, en Skólavörðustígur og Alþingisreiturinn og nágrenni hans eru undanskildir. Þegar hafa rétt um 20 staðir sótt um frjálsan afgreiðslutíma áfengis og hefur um helmingur umsóknanna verið afgreiddur. Fleiri umsóknir verða afgreiddar á fundi borgarráðs á föstudag. Samþykkt borgarstjórnar heimilar einnig veitingastöðum á atvinnusvæðum, þar sem íbúðir eru ekki innan 50 metra radíus, að hafa frjálsan afgreiðslutíma áfengis frá föstudagsmorgni til sunnudagskvölds. Frjáls opnunartími er einnig heimill aðfaranætur almennra frídaga, enda brjóti það ekki í bága við helgidagalöggjöfina.

Verði til að bæta ástandið í miðbænum

 Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, sagði að þegar hefðu rétt um 20 staðir sótt um frjálsan opnunartíma. Fyrirætlanir staðanna væru hins vegar ólíkar og flestir þeirra væru einkum að leita eftir svigrúmi til þess að geta afgreitt eitthvað lengur en til þrjú á nóttinni. "Það er von borgaryfirvalda að með þessari tilraun, sem standa mun í þrjá mánuði, verði sú breyting á næturlífinu í Reykjavík að gestir veitingahúsanna komi ekki þúsundum saman svo að segja á sömu mínútunni út af skemmtistöðunum, en það hefur bæði valdið ónæði, mannsöfnuði á götum, skorti á leigubílum og margvíslegum öðrum óþægindum. Þannig verði þetta aukna frjálsræði fremur til þess að bæta ástandið í miðborg Reykjavíkur um helgar," sagði Helgi.  Hann sagði að í nýjum starfsreglum borgarráðs um vínveitingaleyfi væri gert ráð fyrir að unnt yrði að veita stöðum mun meira aðhald í rekstri. Fyrirkomulagið væri þannig að ef staðir brytu af sér fengju þeir áminningu. Ef það endurtæki sig tæki borgarráð afstöðu til þess að svipta staðinn leyfinu um lengri eða skemmri tíma. "Við leggjum á það áherslu að samfara auknu frelsi í þessum efnum axli veitingamenn jafnframt ábyrgð," sagði Helgi ennfremur.  Hann sagði að tekin hefði verið afstaða til rúmlega helmings þeirra umsókna sem borist hefðu um frjálsan opnunartíma. Flestar þær umsóknir sem ætti eftir að afgreiða yrðu afgreiddar á borgarráðsfundi á föstudaginn kemur, en einstaka umsækjendur hefðu vanrækt skil á gögnum eða uppfylltu ekki eldvarnarkröfur eða annað slíkt, þannig að ekki yrði unnt að veita þeim leyfi fyrr en seinna. Þeir sem yrðu búnir að fá leyfi fyrir lok vikunnar gætu ráðið opnunartíma sínum um helgina.  Tillagan var samþykkt samhljóða. Minnihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn flutti tillögu um að frjáls opnunartími yrði heimilaður allt að Snorrabraut, en það var fellt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka