Reykjafoss kom um hádegisbil til Seyðisfjarðar með útbúnað kafara sem eiga að freista þess að þétta rifur á flaki El Grillos og stöðva þannig olíuleka. Búist er við að verkið taki um vikutíma. Að sögn hafnarstjóra hefur heldur dregið úr lekanum síðustu daga eftir að kólna fór í veðri.
Ásgeir Magnússon hafnarstjóri sagði að olíuskán lægi eins og þunnt teppi yfir stórum hluta fjarðarins en ekki væri þó um verulegt magn að ræða. Kafarar á vegum Hollustuverndar ríkisins staðsettu lekann úr flakinu í sumar en að sögn Árna Kópssonar, eins af fjórum köfurum sem nú eru að undirbúa aðgerðir á Seyðisfirði, var erfitt að sjá hvar rifan var nákvæmlega vegna mikillar drullu og röralagna á flakinu. Hann sagði að dagurinn í dag færi að mestu í undirbúning en bjóst samt við að kafað yrði niður að flakinu síðdegis. Skip Landhelgisgæslunnar verður í Seyðisfirði en um borð er ýmiss konar öryggisbúnaður, svo sem afþrýstiklefi fyrir kafara. Þá verða kafarar á vegum Gæslunnar til taks ef þörf er á fleiri köfurum. Einnig mun Landhelgisgæslan gera úttekt á verkinu að því loknu. Ríkisstjórnin hefur veitt 10 milljóna króna aukafjárveitingu til verksins.