Fyrrverandi þyrluforingi á Keflavíkurflugvelli kærður fyrir kynferðisafbrot

Foringi þyrlusveitar í bandaríska flughernum hefur verið kærður fyrir líkamsárás og kynferðisafbrot og er hluti afbrotanna sagður hafa verið framinn meðan hann var við störf í Varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Maðurinn vann mikið afrek í byrjun árs 1994 þegar hann stjórnaði þyrluflugsveit sem bjargaði sex skipverjum björgunarskipsins Goðans sem strandaði í Vöðlavík. Lögfræðingur hans segir ásakanirnar upplognar og tengjast erfiðu skilnaðarmáli.

Meint brot mannsins eru sögð hafa átt sér stað á árunum 1989-1999 í Flórída og Illinois í Bandaríkjunum og á Varnarstöðinni í Keflavík. Hann er sakaður um kynferðisbrot gagnvart tveimur stúlkum undir lögaldri, meðal annars tilraun til nauðgunar, og árás á eiginkonu sína í júní sl., auk annarra brota. Rannsókn málsins hófst í júní sl. og hefur hann verið færður úr starfi sínu sem yfirmaður flugsveitar meðan á henni stendur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert