VIÐRÆÐUR eru á lokastigi um sameiningu sjö fyrirtækja sem reka kjötvinnslur og sláturhús á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Fyrirtækið verður stærsta sláturfélag landsins því samanlögð velta fyrirtækjanna er rúmir þrír milljarðar kr. Viðræður um sameiningu fyrirtækjanna hafa staðið yfir í nokkra mánuði. Í gær tókst ekki að fá staðfest opinberlega að samningar hefðu náðst en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru viðræðurnar á lokastigi. Vonast var til að niðurstaða fengist í dag. Sláturhús og kjötvinnslur Fyrirtækin sem sameinast, ef samningar takast, eru sláturhúsarekstur Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum, Kjötiðjan ehf. á Húsavík, kjötiðnaður Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri og Norðvesturbandalagið hf. á Hvammstanga. Einnig koma inn í sameininguna Bautabúrið hf. á Akureyri en það er dótturfélag Kjötiðjunnar ehf., Kjötumboðið hf. (Goði) í Reykjavík en það fyrirtæki er í eigu Kjötiðjunnar, Norðvesturbandalagsins og fleiri sláturhúsa og Sláturfélag Vesturlands ehf. í Borgarnesi, sem er í eigu KEA og Norðvesturbandalagsins. Norðvesturbandalagið hf. er með aðsetur á Hvammstanga en er auk þess með starfsemi á Hólmavík og í Búðardal.
Þrír norðlenskir sláturleyfishafar hafa ekki tekið þátt í viðræðunum nú, Kaupfélag Skagfirðinga á Sauðárkróki, Sölufélag Austur-Húnvetninga á Blönduósi og sláturhús Ferskra afurða hf. á Hvammstanga.
Þriggja milljarða velta
Fyrirtækin sjö reka átta sláturhús á svæðinu frá Borgarnesi, vestur, norður og austur um land, allt til Breiðdalsvíkur. Þá reka fyrirtækin fimm eða fleiri kjötvinnslufyrirtæki. Þau hafa ýmist selt sjálf framleiðslu sína eða í gegn um Kjötumboðið hf. Þess má geta að Kjötiðjan á Húsavík er í eigu Landsbanka Íslands. Samanlögð velta fyrirtækjanna er rúmir þrír milljarðar kr. á ári. Sameinað fyrirtæki verður stærsta sláturfélag landsins með nálægt helmingi meiri veltu en Sláturfélag Suðurlands og Þríhyrningur hf., sem KASK á Hornafirði á og rekur.