Keflavík - Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli vann nýlega til æðstu verðlauna sem veitt eru í árlegri samkeppni milli allra slökkviliða innan bandaríska flotans og afhenti Mark H. Anthony, kafteinn og yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins, verðlaunin Haraldi Stefánssyni slökkviliðsstjóra. Slökkvilið varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er sem kunnugt er eina slökkvilið Bandaríkjahers sem að fullu er skipað útlendingum., þ.e. öðrum en Bandaríkjamönnum, og hefur liðið margsinnis unnið til verðlauna fyrir störf sín. Upphaflega var slökkviliðið eingöngu skipað bandarískum atvinnuslökkviliðsmönnum og hermönnum. Árið 1952 voru fyrstu íslensku starfsmennirnir ráðnir við hlið þeirra og árið 1963 varð Sveinn Eiríksson slökkviliðsstjóri - og var það í fyrsta sinn sem erlendur maður var ráðinn í stöðu slökkviliðsstjóra hjá Bandaríkjaher. Upp frá því fóru íslenskir starfsmenn að taka að sér stjórnunarstörf jafnframt því sem Bandaríkjamönnum fækkaði og árið 1968 var liðið að fullu skipað Íslendingum. Til marks um traust yfirmanna varnarliðsins til starfsmanna og stjórnenda slökkviliðsins var þeim árið 1975 falið það vandasama verk að annast snjóruðning og hálkuvarnir á flugbrautum Keflavíkurflugvallar auk annarrar öryggisgæslu. Árið 1977 var þeim einnig falið að annast fermingu og affermingu herflutningavéla. Slökkviliðið er nú skipað 158 starfsmönnum og nam kostnaður við rekstur þess á síðasta ári 613 milljónum króna. Við þetta tækifæri var nokkrum starfsmönnum slökkviliðsins afhent starfshæfnisskírteini Brunamálastofnunar Íslands og Brunamálastofnunar Bandaríkjanna. Því er við að bæta að undanfarin 14 ár hefur slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli orðið árlega í einu af þrem efstu sætunum í hinni árlegu samkeppni milli slökkviliða bandaríska flotans.