Ragnheiður Gröndal, nemi úr Garðaskóla í Garðabæ, bar sigur úr býtum í árlegri söngkeppni samtaka félagsmiðstöðva, SAMFÉS, sem haldin var í íþróttahúsi Garðabæjar í gærkvöldi. Söng hún lagið To Love You More sem þekkt er í flutningi söngkonunnar Celine Dion. Keppendur frá 31 félagsmiðstöð víða um land tóku þátt í keppninni og að sögn Jóns Rúnars Hilmarssonar, framkvæmdastjóra SAMFÉS, fylgdust um 1.500 unglingar með keppninni sem fór afar vel fram.
Í öðru sæti voru stúlkur frá félagsmiðstöðinni Hólnum í Kópavogi, þær Arna Rún Ómarsdóttir, Lilja Helgadóttir og Gyða Arna Halldórsdóttir, og í þriðja sæti voru þau Sigurlaug Gísladóttir frá Tónabæ og Kristín Ýr Bjarnadóttir, Friðrik Fannar Gíslason og Pétur Örn Gunnarsson frá Miðbergi í Breiðholti.