Lítið dregur úr tíðni camphlylobactermengunar í kjúklingum


mbl.is

Könnun sem heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu gerðu í janúarlok á tíðni camphylobactermengunar í ferskum kjúklingum sýnir að 38% sýna úr kjúklingum frá Reykjagarði voru jákvæð og 27% sýna frá Ferskum kjúklingum ehf. Engin mengun var hins vegar í sýnum frá Ísfugli. Hefur heilbrigðisnefndin falið Heilbrigðiseftirlitinu að gera næstu könnun á ástandi ferskra kjúklinga þegar í lok þessa mánaðar og hótar aðgerðum komi ekki verulegur árangur í ljós.

Niðurstöður könnunarinnar, sem gerð var 17.-25. janúar, voru lagðar fram á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Alls voru tekin 29 sýni úr ferskum kjúklingum og þau rannsökuð. Engir salmonellasýklar fundust en 8 kjúklingar voru mengaðir af camphylobacter eða 28%. Þar af voru 3 af 11 kjúklingum frá Ferskum kjúklingum og 5 af 13 kjúklingum frá Reykjagarði. Enginn kjúklingur af 5 frá Ísfugli var mengaður.Í bókun heilbrigðisnefndar er lýst miklum vonbrigðum með þessa niðurstöðu og segir þar að litlar breytingar hafi orðið á tíðni camphylobactermengunar í ferskum kjúklingum frá Ferskum kjúklingum og Reykjagarði sem selji kjúklinga undir merkjunum Móar, Ferskir kjúklingar og Holtakjúklingur. Engir eldishópar hafi reynst jákvæðir í 4 vikna eftirliti það sem af er árinu og því séu miklar líkur á að sýkillinn berist í kjúklingana á síðasta hluta eldistímans, þ.e. í fuglatýnslunni, í flutningum eða í sláturhúsi.Á sama tíma staðfesti könnunin þó þann góða árangur sem hægt sé að ná í baráttunni við camphylobactersýkingar en framleiðandinn Ísfugl, sem selji undir merkjunum Ísfugl og Kjúlli, mælist enn á ný án mengunar. Samþykkti nefndin að fela Heilbrigðiseftirlitinu að gera næstu könnun á ástandi ferskra kjúklinga þegar í lok þessa mánaðar. Sýni niðurstöður þeirrar könnunar ekki fram á verulegan árangur af aðgerðum framleiðenda muni nefndin taka ákvarðanir um aðgerðir til verndar neytendum. Á fundinum tók Hrannar B. Arnarson við formennsku í heilbrigðisnefndinni af Helga Péturssyni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert