Mannvernd ákveður að höfða mál vegna gagnagrunns

Samtökin Mannvernd hafa ásamt öðrum ákveðið að láta reyna á nokkur ákvæði laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði fyrir dómstólum. Þeir sem að málarekstrinum standa telja að lögin, reglugerðin og rekstrarleyfið brjóti í bága við réttindi sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna, almennings og barna vegna þess að um sé að ræða persónugreinanlegar upplýsingar sem verði afhentar þriðja aðila án samráðs við sjúklinga eða heilbrigðisstarfsmenn. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður mun reka málið fyrir dómstólum.

Þetta var kynnt á blaðamannafundi í dag. Þar kom fram að ekki væri búið að ganga frá stefnu í málinu, en hún yrði birt ríkinu og öðrum þeim sem við ætti. Sagðist Ragnar ekki telja ólíklegt að málið kæmi til kasta alþjóðlegra dómstóla, m.a. Mannréttindadómstólsins í Strassborg, eftir að meðferð þess lýkur hér, en það færi þó eftir niðurstöðunni í Hæstarétti. Fram kom að ólíklegt er að reynt verði að fá sett lögbann á rekstur gagnagrunnsins þar sem leggja þyrfti fram svo háa tryggingu fyrir því.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert