Páll Valsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki rita almenns efnis fyrir bók sína Jónas Hallgrímsson. Andri Snær Magnason hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir bókina Sagan af bláa hnettinum. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti um verðlaunin á Bessastöðum laust eftir klukkan fjögur í dag.
Páll sagði þegar hann tók við verðlaunum að þau væri mikill heiður og ekki spillti fyrir að það væri á Bessastöðum þar sem Jónas Hallgrímsson hafi tekið út sinn mesta þroska. Þá sagði hann að góðar viðtökur bókarinnar meðal almennings sýni bæði hve stóran sess Jónas skipi hjá þjóðinni og að fólk sé opið fyrir því að skoða listaskáldið góða í nýju ljósi. Andri Snær sagði einnig að mikill heiður væri að hljóta verðlaunin og þá sérstaklega þar sem „bók sem geymist þar sem börn ná til" skuli hafa hlotið verðlaun í flokki fagurbókmennta. Hann bætti við að hann vonaðist til að þetta væri fyrsta skrefið í viðhorfsbreytingu gagnvart börnum. Þetta væri einnig mikilvægt fyrir barnabókarithöfunda því það gæfi þeim möguleika á að verða metnir sem listamenn. Alls voru fimm bækur tilnefndar til verðlauna í hvorum flokki. Í lokadómnefnd sátu Haraldur Ólafsson sem var formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir, formaður dómnefndar rita almenns efnis, og Jón Reykdal, formaður dómnefndar fagurbókmennta.