Stórhríð víða á Norðausturlandi og Austurlandi

Unnið við snjómokstur við Flétturima í Reykjavík í morgun.
Unnið við snjómokstur við Flétturima í Reykjavík í morgun. mbl.is/Júlíus

Stórhríð er nú víða á Norðausturlandi og Austurlandi og er beðið átekta með mokstur vega þar uns veður lagast. Þrátt fyrir það eru flestir vegir færir í nágrenni Húsavíkur og á Fljótsdalsheiði. Fært er um vegi á Reykjanesi og um Þrengsli og á Suðurlandi vestan Kirkjubæjarklausturs og er byrjað að moka þaðan áleiðis til Hafnar og Djúpavogs. Gert er ráð fyrir að vegurinn yfir Hellisheiði verði fær síðdegis.

Á Vesturlandi eru vegir yfirleitt færir og er fært vestur að Reykhólum. Á Vestfjörðum er orðið fært frá Patreksfirði til Tálknafjarðar og Bíldudals og eftir hádegið er búist við að Kleifaheiði opnist. Þá er orðið fært milli þéttbýlisstaða á norðanverðum fjörðunum en beðið er átekta með mokstur um Ísafjarðardjúp. Norðurleiðin er fær til Hólmavíkur og einnig í Skagafjörð og til Skagastrandar og Siglufjarðar og hafinn mokstur á Öxnadalsheiði. Frá Akureyri er fært til Ólafsfjarðar og hafinn mokstur til Grenivíkur en beðið er með mokstur um Víkurskarð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert