Íslensk erfðagreining fær byggingarlóð á Háskólasvæðinu

Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands, Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri skrifuðu í dag undir þríhliða samkomulag um úthlutun lóðar handa Íslenskri erfðagreiningu á Háskólasvæðinu.

Samkvæmt samkomulaginu gengst Reykjavíkurborg fyrir því að breyting verði gerð á deiliskipulagi Háskólasvæðisins á þann veg að leyft verði að reisa 10.000 fermetra byggingu undir starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á svæðinu og skal ljúka skipulagsbreytingunni innan þriggja mánaða frá undirritun samkomulagsins. Fyrir lóðina greiðir fyrirtækið 104 milljónir króna og gengur helmingur fjárins til Háskóla Íslands til að efla starfsemi hans. Þá fær Háskóli Íslands takmörkuð afnot af fyrirlestrarsal, fundaraðstöðu, aðstöðu til kennslu og aðstöðu fyrir stúdenta í húsi ÍE í þeim mæli sem starfsemi fyrirtækisins leyfir. Með úthlutun lóðarinnar líta aðilar samkomulagsins svo á, að Háskóli Íslands tengist nánar íslensku atvinnulífi, einkum þeim vaxtarbroddi sem fæst við þekkingarsköpun og hátækniiðnað. Íslensk erfðagreining skuldbindur sig til að reisa eða láta reisa hús sitt á lóðinni innan tveggja ára frá því að gengið hefur verið frá skipulagsbreytingunni og formleg úthlutun hefur átt sér stað. Fer fram lokið samkeppni um hönnun byggingarinnar, og keyptar verða a.m.k. þrjár tillögur frá þremur óháðum arkitektastofum og valin til útfærslu sú þeirra sem Íslensk erfðagreining ehf. telur besta eftir að Háskóla Íslands hefur gefist kostur á að láta í ljós álit á tillögunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert