Sjúkrahúsin í Reykjavík sameinuð

Sjúkrahúsin í Reykjavík verða sameinuð á næstu dögum en með því er stefnt að því að gera stjórnun og starfsemi þeirra skilvirkari í því skyni að bæta þjónustu við sjúklinga í bráð og lengd, að því er fram kom á blaðamannafundi Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra í dag.

Þar kom fram að markmiðið með rekstri sameinaðs hátæknispítala væri að vera áfram í fararbroddi í þjónustu við sjúklinga og að geta veitt þjónustu hérlendis sambærilega því sem best gerist annars staðar. Með sameiningu myndi sjúkrahúsið standa betur að vígi í vaxandi samkeppni á alþjóðavettvangi um fagfólk og með sameiningu yrði áfram unnt að tryggja öllum sjúklingum jafnan aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ væri á. Samkvæmt tillögu stjórnar spítalanna verður til sex manna framkvæmdastjórn hins sameinaða sjúkrahúss. Gert er ráð fyrir fimm framkvæmdastjórum á jafn mörgum sviðum sem allir verða skipaðir af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert